Gudmundur Fertram Sigurjónsson stofnandi Kerecis segir að það sem erfiðast er við að reka fyrirtæki á Vestfjörðum séu samgöngur. Þetta kom fram í viðtali við Guðmund á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
Hann segir að samgönguáætlun sem nú liggi fyrir sé alls ekki nógu góð og það þurfi að tengja Vestfirði með láglendisvegi við Reykjavíkursvæðið.
Guðmundur segir að kostnaðurinn við það sé ekkert rosalega mikill, eða um 50 milljarðar króna.
Guðmundur segir að tekjur Kerecis og laxeldis á Vestfjörðum séu kannski 100-150 milljarðar og þarf því aðeins þriðjung af þessu til að gera samgöngur á svæðinu mannsæmandi. Einnig séu flugsamgöngur ekki góðar auk þess Guðmundur er andvígur því að leggja niður Reykjavíkurflugvöll.
Borgarlínan gömul tækni
Guðmundur var harðorður um samgöngumál á höfuðborgarsvæðinu og sagði að borgarlínan væri tækni gærdagsins.
„Svo er verið að setja 250 milljarða í Borgarlínu sem er bara gömul tækni. Tími almenningssamgangna er búinn. Nú er þetta sjálfkeyrandi bílar og deilibílar. Í stórborgum út í heimi er eftirspurn eftir almenningssamgöngum að minnka. Hún er að færast yfir í Uber og Lyft.
Þessir bílar verða sjálfkeyrandi eftir nokkur ár. Það mun enginn koma til með að eiga bíla eftir nokkur ár, það mun enginn til með að nota almenningssamgöngur.“
Athugasemd blaðamanns:
Samgöngusáttmáli er í endurskoðun en í honum felst meira en borgarlínan. Samkvæmt Betri samgöngum ohf, sem er sérstakt félag um framkvæmdina, er borgarlínan 42% af verkefninu.
Nýjustu tölur um kostnað við sáttmálann eru frá því janúar og nemur hann samkvæmt þeim 170 milljörðum króna.
Á það hefur hins vegar bent margoft á síðum Viðskiptablaðsins að opinber verkefni sem þessi fari oftar en ekki langt fram úr áætlun.
Nærtækasta dæmið er bygging nýs Landspítala. Í fyrra hljóðaði kostnaðaráætlunin upp á 90 milljarðar króna en stendur í dag í 210 milljörðum og verkið skammt komið.