Fjárfestingafélagið FnFI ehf., í eigu hjónanna Guðmundar Fertrams Sigurjónssonar stofnanda Kerecis og Fanneyjar Kr. Hermannsdóttur, hefur fjárfest í netöryggisfyrirtækinu Defend Iceland.
„Tilgangur fjárfestingarinnar er að styðja við stefnu og markmið félagsins um öruggara samfélag með þróun á villuveiðigátt og öðrum lausnum, þar sem Ísland er fyrsti markaðurinn til að sannreyna vöruna,“ segir í fréttatilkynningu.
„Það er mikið gleðiefni að fá farsæla og reynslumikla frumkvöðla á borð við Guðmund Fertram og Fanneyju inn í eigendahóp Defend Iceland. Fjárfesting þeirra, sérþekking og reynsla mun styðja við áframhaldandi vöruþróun og vöxt félagsins á markaði þar sem þörfin fyrir fyrirbyggjandi netöryggisaðgerðir eykst sífellt. Við erum þakklát fyrir traustið sem þau sýna okkur og hlökkum til samstarfsins,“ segir Theódór Ragnar Gíslason, stofnandi Defend Iceland.
Netárásir eru oft framkvæmdar í gegnum öryggisveikleika sem er að finna í öllum net- og hugbúnaðarkerfum. Í villuveiðigátt Defend Iceland er hermt eftir aðferðum tölvuhakkara og skipulagðra netárásarhópa til að leita með markvissum hætti að slíkum veikleikum í upplýsingatæknikerfum fyrirtækja og stofnana.
„Þannig er snúið úr vörn í sókn og öryggisveikleikar eru fundnir áður en árásaraðilar geta nýtt þá til netárása eða gagnaleka,“ segir í tilkynningunni.
Tölfræði fyrirtækisins sýnir að ríflega 95% þeirra öryggisveikleika sem tilkynntir eru til Defend Iceland voru áður óþekktir í hefðbundnum skönnunartólum. Fyrirtækið segir þá staðreynd að hefðbundin veikleikaskönnunartól leiti einungis þekktra veikleika sýni að þörfin fyrir betri og markvissari lausnir sé mikil.
„Netglæpum fjölgar hratt og aðferðarfræði Defend Iceland er einstök og svarar þeim áskorunum sem fyrirtæki og stofnanir um allan heim glíma við. Hugmyndafræðin og tæknilausnirnar sem eru í þróun eiga erindi út um allan heim og okkur hlakkar til að taka þátt í þeirri vegferð,“ segir Guðmundur Fertram Sigurjónsson.

Kjarninn í hugmyndafræði Defend Iceland er svokallaður samfélagssjóður, sem hefur það markmið að efla ábyrgar tilkynningar og opinberun öryggisveikleika í þágu samfélagsins alls. Samfélagssjóðurinn er fjármagnaður af viðskiptavinum og netöryggissérfræðingum fyrirtækisins sem vilja ekki aðeins tryggja eigið netöryggi heldur jafnframt stuðla að öruggara stafrænu samfélagi og jákvæðri öryggismenningu.
Sjóðurinn veitir styrki fyrir lítil fyrirtæki og óhagnaðardrifna aðila, þar sem viðkvæm gögn og innviðir eru undir. Með þessu er stefnt að því að skapa fjölbreyttari og jafnari aðgang að forvirku netöryggi.
„Netöryggi er ekki bara eitthvað sem skiptir fyrirtæki máli, heldur okkur öll og er grunnurinn að nútímasamfélagi. Það er ánægjulegt að fá að koma að því að byggja upp öruggara samfélag fyrir okkur öll. Við trúum á framtíðarsýn Defend Iceland og sjáum hana sem mikilvægt framlag til öruggara samfélags,“ segir Fanney Kr. Hermannsdóttir.
Defend Iceland hefur fengið styrk frá Tækniþróunarsjóði og einnig notið stuðnings frá Evrópusambandinu sem veitti verkefninu 380 milljónir króna í styrk í gegnum Digital Europe áætlunina.