Coloplast, móðurfyrirtæki Kerecis, tilkynnti í morgun um breytt skipurit. Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi Kerecis tekur sæti í framkvæmdastjórn samstæðunnar og verður ábyrgur fyrir rekstri nýstofnaðrar rekstrareiningar Coloplast á sviði sára- og viðgerðar á líkamsvef sem Kerecis verður hluti af.

Áætlaðar tekjur rekstrareiningarinnar í ár eru um 60 milljarðar króna og eru starfsmenn einingarinnar um 1.500 í tuttugu löndum.

Coloplast birti einnig ársfjórðungsuppgjör í morgun og var vöxtur samstæðunnar á ársfjórðungnum 7% eða samkvæmt áætlun. Innköllun á sáravörum í Kína hafði neikvæð áhrif á vöxt Coloplast en vöxtur Kerecis á tímabilinu var 16% sem er lækkun frá fyrri ársfjórðungi þar sem hann var 30%.

Upplýst var um að hægari vöxtur Kerecis á tímabilinu sé til kominn vegna breytinga á endurgreiðslukerfi bandaríska almannatryggingakerfisins Medicare sem hafi haft tímabundin neikvæð áhrif.

Fjölskyldan flytur til Evrópu

Guðmundur Fertram segir í samtali við Viðskiptablaðið að stofnun nýju rekstrareiningarinnar hafi engin áhrif á starfsemi Kerecis á Íslandi sem haldist óbreytt. Breytingarnarnar hafi hins vegar áhrif á hans persónulega líf þar sem nýja staðan kalli á tímabundinn flutning fjölskyldunnar til Evrópu en hann mun starfa talsvert á Benelux svæðinu.

Talsverður vöxtur hafi annars verið í starfsmannahaldi og umsvifum Kerecis á Íslandi undanfarið ár og þá sérstaklega á Ísafirði þar sem m.a. stendur til að byggja nýtt framleiðsluhúsnæði.

„Það er afskaplega gaman að fá þessa auknu ábyrgð og talsverð áskorun þar sem vöxtur á sölu sáravara Coloplast, að undanskyldum vörum Kerecis, hefur verið minni en flestra annara vöruflokka Coloplast undanfarin ár,“ segir Guðmundur Fertram.

„Verkefnið frammundan er að koma sáraroðinu frá Ísafirði í sölu um allan heim ásamt því að samþætta roðtæknina okkar við sáratækni Coloplast í nýjum vörum”.

Kerecis var sem kunnugt er selt Coloplast ári 2023 fyrir 1,3 milljarða dollara sem samsvaraði þá um 180 milljörðum króna og varð þar með fyrsti íslenski einhyrningurinn. Í febrúar síðastliðnum var greint frá því að hugverkaréttur Kerecis hafi verið færður frá Íslandi til dönsku höfuðstöðva Coloplast sem hafi í för með sér 40 milljarða króna skattskyldu á Íslandi.