Guðmundur Fertram Sigurjónsson, stofnandi og forstjóri Kerecis, hefur með fulltrúum fyrirtækja á Vestfjörðum stofnað samtök sem kallast Innviðafélag Vestfjarða.

Þau hafa það að markmiði að stuðla að bættri umræðu um innviði og uppbyggingu þeirra á Vestfjörðum. Það verður meðal annars gert með vefsíðu sem birtir skattafótspor Vestfjarða í tengslum við innviðauppbyggingu í landshlutanum.

Guðmundur segir í samtali við Viðskiptablaðið að búið sé að greina skattafótspor vestfirskra fyrirtækja tíu ár aftur í tímann og þá sé einnig unnið að áætlun fyrir næstu tíu ár sem sýni fram á mikla aukningu skatttekna sem þjóðarbúið muni njóta frá Vestfjörðum.

„Málflutningur í tengslum við samgöngur á Vestfjörðum hefur alltaf verið að fjórðungurinn sé afskiptur og að það sé verið að fara illa með fólk. Við viljum breyta umræðunni þannig að þegar samgöngumál verða rædd á Alþingi í haust, snúist umræðan um arðbærni vegaframkvæmda á Vestfjörðum og hvernig megi auka arðbærni með hraðari framkvæmdum.“

Guðmundur hefur ekki farið leynt með skoðanir sínar í tengslum við samgöngumál og hefur gagnrýnt bæði áform um borgarlínu og vegakerfi Vestfjarða. Hann vill breyta umræðunni á þann veg að með innviðauppbyggingu á Vestfjörðum sé verið að auka skatttekjur til framtíðar, frekar en að veita einhverja ölmusu.

„Við viljum taka umræðuna meira út frá efnahagslegum forsendum, frekar en að það sé verið að fara illa með fólk. Betra vegakerfi er varðstaða um atvinnulífið og auknar skatttekjur. Þannig fær þjóðin meiri tekjur til að reka heilbrigðis- og menntakerfið.“

Vefsíðan í loftið á næstu vikum

Hann segir að vefsíðan fari í loftið á næstu vikum og mun hún einnig innihalda gögn um hvað það myndi kosta að gera láglendisveg frá stærstu byggðarkjörnum Vestfjarða yfir á hringveginn, verk sem er nú þegar í þróun.

„Það er efnahagslegt ævintýri í gangi núna á Vestfjörðum, bæði með Kerecis, fiskeldi og fleiri fyrirtækjum. Til að setja þær efnahagsstærðir í samhengi við eitthvað sem við þekkjum, þá erum við að tala um að innan örfárra ára verði tekjur frá þessum greinum hærri en útflutningstekjur þorskveiða Íslendinga. Við þurfum að tryggja framgang þessa vaxtar með innviðauppbyggingu.“

Kallaði eftir sex jarðgöngum fyrir Vestfjarðalínu

Guðmundur Fertram skilaði fyrir rúmu ári inn umsögn um samgönguáætlun til 2038 þar sem lagði fram hugmynd um svokallaða „Vestfjarðalínu“ sem myndi tengja byggðarlögin á Vestfjörðum með láglendisvegi við Vesturland og þar með höfuðborgarsvæðið.

Slíkt myndi kalla á gerð þrennra jarðganga á því sem hann nefnir meginlínu og annars eins fjölda á svokallaðri hliðarlínu. Vestfjarðarlínan yrði nútíma gatnakerfi sem myndi leiðrétta „samgönguskuld“ á Vestfjörðum, að því segir í umsögn Guðmundar Fertrams.

„Láglendisvegur milli megin byggðarlaga Vestfjarða s.k. „Vestfjarðarlína“ og höfuðborgarvæðisins er nauðsynleg fyrir áframhaldandi vöxt Kerecis og annarra vaxtarsprota á svæðinu, sem eru undir sama hatt settir og er nærtækast að nefna laxeldið sem er farið að skila verulegum útflutningstekjum í þjóðarbúið,“ segir í umsögninni.

„Búast má við að tekjur þessara atvinnugreina, ásamt tekjum frá hefðbundnum atvinnugreinum á svæðinu, verði yfir 150 milljarðar króna innan nokkurra ára. Til viðbótar við Vestfjarðarlínuna þarf að huga að innviðum fyrir flug með nýjum flugvelli á Ísafjarðarsvæðinu.“