Guðmundur Ingi Guðbrandsson, félags- og vinnumarkaðsráðherra, hefur veitt Samtökunum ´78 styrk að upphæð 20 milljónum króna. Af tilkynningu félags- og vinnumarkaðsráðuneytisins að dæma er um að ræða einskiptis styrk sem kemur til viðbótar við 40 milljóna króna árlegt framlag frá forsætisráðuneytinu samkvæmt sérstökum þjónustusamningi.
Fram kemur að styrkur félags og vinnumálaráðherra sé veittur til Samtakanna ´78 til að sinna ráðgjöf fyrir hinsegin fólk, aðstandendur þess og þau sem ekki eru viss um eigin hinseginleika. Þá hafi eftirspurn eftir ráðgjafarþjónustu samtakanna aukist umtalsvert á síðustu árum.
„[Styrknum] verður meðal annars varið í að veita einstaklingsráðgjöf, bjóða upp á stuðningshópa, virknihópa og sinna sértækum stuðningi við flóttafólk sem og eldra fólk. Markmiðið er að styðja einstaklinginn, veita aðstoð og vera til staðar.“
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra undirritaði nýjan þjónustusamning við samtökin í byrjun síðasta árs en með honum fór árlegt framlag úr 15 milljónum í 40 milljónir. Samhliða því veitti ríkisstjórnin samtökunum viðbótarframlag í fyrra upp á 15 milljónir króna til að vinna gegn bakslagi gegn hinsegin fólki í samfélaginu.
„Ég er stoltur af því að styðja við Samtökin ´78,“ segir Guðmundur Ingi í tilkynningu. „Gríðarleg mikilvæg skref hafa verið stigin á undanförnum árum í réttindabaráttu hinsegin fólks, en því miður hefur orðið bakslag í viðhorfum á allra síðustu misserum sem afar brýnt er að vinna gegn. Mikilvægt er að styðja við þau sem þurfa aðstoð vegna hinseginleika og stuðla að þátttöku þeirra í samfélaginu.
Rekstrartekjur Samtakanna ´78 námu 124,6 milljónum króna árið 2022, samanborið við 75,2 milljónir árið 2021. Opinber framlög jukust úr 47,3 milljónum í 75 milljónir á milli ára. Samtökin voru rekin með 13,7 milljóna afgangi árið 2022 eftir 11 milljóna tap árið áður.