Guðmundur Örn Þórðarson, stjórnarmaður og einn stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi Kviku banka, seldi í dag hlutabréf í bankanum fyrir 356 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Guðmundur Örn Þórðarson, stjórnarmaður og einn stærsti einkafjárfestirinn í hluthafahópi Kviku banka, seldi í dag hlutabréf í bankanum fyrir 356 milljónir króna. Þetta kemur fram í tilkynningu til Kauphallarinnar.

Guðmundur, sem hefur setið í stjórn Kviku frá árinu 2017, seldi 25 milljónir hluta eða um 0,53% hlut í Kviku banka á genginu 14,246 krónur á hlut.

Fyrir viðskiptin átti hann 66,75 milljónir hluta, eða 1,41% eignarhlut, í gegnum félagið Attis ehf. Eftir viðskiptin á Guðmundur 41,75 milljónir hluta í Kviku banka, eða um 0,88% eignarhlut. Eftirstandandi eignarhlutur hans í Kviku er um 597 milljónir króna að markaðsvirði.

Guðmundur, sem var áður einn af aðaleigendum Skeljungs, starfar að aðalstarfi við eigin fjárfestingar. Frá árinu 2003 til 2007 starfaði hann sem framkvæmdastjóri fyrirtækjasviðs hjá Straumi fjárfestingarbanka hf. Þar áður var hann sérfræðingur hjá þróunarsviði og fyrirtækjaráðgjöf Íslandsbanka á árunum 2000-2003 og vann í eignastýringu hjá Landsbréfum á árunum 1997-2000.