Töluverð umræða hefur verið í breskum fjölmiðlum um kostnað breska ríkisins við krúnuna í kjölfar andláts Elísabetar drottningar og krýningu Karl konungs.

Fyrir helgi birti breska fjármálaráðuneytið kostnaðinn við útför Elísabetar. Nam hann 162 milljónum punda, eða rúmum 28 milljörðum íslenskra króna.

Eins var fjallað um kostnaðinn við krýningu Karls III um síðustu helgi. Er hann sagður allt að 17 milljarðar króna.

Forsetinn og konungurinn bornir saman

Undanfarin ár hefur lítil opinber umræða verið um hlutverk forseta Íslands og kostnaðinn við forsetaembættið.

Þegar borinn er saman rekstrarframlög íslenska ríkisins til forsetaembættisins og framlaga breska ríkisins til krúnunnar sést að framlag hvers íbúa á Íslandi er 6,9 sinnum hærra en í Bretlandi.

Rétt er að skoða fleira í þessu samhengi. Þá helst ríkisframlög vegna endurbóta á fasteignum og skattareglur.

Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands fær 3 milljónir í laun á mánuði.

Rekstrarkostnaður íslenska forsetaembættisins

Á fjárlögum hvers árs er ákveðið hversu mikið forsetaembættið má kosta.

Í ár er ríkisframlagið 350 milljónir króna en var 341 milljón árið árið. Það er svipuð fjárhæð á núvirði en ríkisreikningur vegna ársins 2022 hefur ekki verið birtur á rikisreikningur.is.

Framlagið til forsetaembættisins hefur hækkað nokkuð síðasta áratuginn. Til að mynda var framlagið 297 milljónir króna árið 2010, á núvirði.

Kostnaðurinn á hvert mannsbarn á Íslandi verður 930 kr. í ár ef forsetaembættið fer að fjárlögum.

Kostnaðurinn við bresku krúnuna

Framlag breska ríkisins til krúnunnar er tvíþætt. The Telegraph fjallaði ítarlega fyrir helgi um framlögin til konungsdæmisins.

Annars vegar er um að ræða fast rekstrarframlag og síðan sérstakt framlag vegna endurbyggingar Buckingham-hallar sem fellur niður árið 2027.

Fasta rekstrarframlaginu svipar mjög til ríkisframlagsins til forsetaembættisins. Það fer í að greiða starfsfólki laun og rekstur skrifstofa krúnunnar.

Heildarframlagið til krúnunnar nam 86,3 milljónum punda árið 2022. Það þýðir 1,29 pund á hvern íbúa Bretlands, eða 225 krónur.

Þegar sértæka framlagið vegna hallarinnar er dregið frá er hið eiginlega rekstrarframlag 0,77 pund, eða 134 krónur.

Munurinn mikill

Kostnaðurinn á hvern íbúa við rekstur æðsta þjóðarhöfðingjans er því miklu hærri á Íslandi en í Bretland á íbúa, 930 kr. á Íslandi en 134 krónur í Bretlandi.

Munurinn er því 6,9 faldur ef borin eru saman íslensku fjárlögin fyrir árið 2023 og raunverulegt framlag breska ríkissjóðsins í fyrra.

Hver eru rökin fyrir embættunum?

Íslenski forsetinn og breski konungurinn hafa álíka veigalítil hlutverk í stjórnskipan landanna. Væri með auðveldum hætti hægt að færa hlutverk þeirra til annarra í stjórnkerfinu, eða kjósenda. Til dæmis væri hægt að færa hið svokallaða neitunarvald forseta Íslands til kjósenda í þjóðaratkvæðagreiðslu – ef nægur fjöldi kjósenda myndi krefjast þess.

Í Bretlandi hafa þau rök helst verið notuð með óbreyttu hlutverki krúnunni að hún hafi verulega jákvæð áhrif á breskan efnahag, sérstaklega á ferðaþjónustu.

Breska ráðgjafafyrirtækið CEBR (Centre for Economics and Business research), hefur metið jákvæð áhrif krúnunnar á ferðaþjónustuna 567 milljónir punda á ári, að meðaltali, eða tæpa 100 milljarða króna á ári.

Viðskiptablaðinu er ekki kunnugt um að rannsakað hafi verið hvort áhrif íslenska forsetans séu jákvæð á íslenskan efnahag.

Konungurinn nýtur skattleysis en forsetinn ekki

Breski konungurinn nýtur viss skattfrelsis. Hann greiðir til að mynda ekki tekjuskatt, fjármagnstekjuskatt og erfðafjárskatt. Hins vegar hefur konungsfjölskyldan greitt töluvert í aðra skatta frá árinu 1993.

Vegna þessa greiðir Karl engan erfðafjárskatt af arfinum frá móður sinni. Persónulegar eignir Elísabetar Bretadrottningar voru metnar á um 370 milljónir punda, eða um 60 milljarða króna.

Venjulegur Breti þarf að greiða 40% erfðafjárskatt á eign umfram 325 þúsund pund, eða 56,6 milljónir króna. Ef sama regla gilti um Karl konung hefði hann þurft að greiða um 24 milljarða króna í erfðafjárskatt.

Engar sambærilegar reglur er að finna lengur í íslenskum skattalögum. Árið 2000 var skattfrelsi forseta Íslands afnumið og laun hans hækkuð til að bæta upp fyrir breytinguna.

Fyrir árið 2000 var forsetinn „undanþeginn öllum opinberum gjöldum og sköttum“ samkvæmt lögum nr. 10/1990 um um launakjör forseta Íslands.