Úrslit í formannskjöri Sjálfstæðisflokksins liggja nú fyrir. Í framboði voru Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir og Snorri Ásmundsson. Alls greiddu1.862 atkvæði og voru1.858 þeirra gild. Guðrún hlaut 931 atkvæði eða 50,11% og Áslaug Arna 912 atkvæði eða 49,09%. Aðrir hlutu 15 atkvæði og fjögur voru ógild.

„Nú hefst vinnan kæru vinir. Við ætlum að stækka flokkinn og verða aftur hryggjarstykkið í íslenskri pólitík," sagði Guðrún í ræðu sinni eftir að úrslitin höfðu verið kunngjörð.

Þar með er nýtt forystufólk tekið við Sjálfstæðisflokknum á þessum 45. lands­fundi Sjálf­stæðis­flokks­ins, sem fer fram í Laug­ar­dals­höll. Bjarni Benediktsson hefur nú stigið til hliðar en hann hafði verið formaður flokksins frá árinu 2009. Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir gaf ekki kost á sér til voraformennsku en hún hafði gegnt stöðunni síðustu sjö ár.

Jens Garðar Helgason var kjörinn varaformaður flokksins. Atkvæði féllu þannig að Jens Garðar hlaut 928 atkvæði eða 53,2% og Diljá Mist Einarsdóttir 758 atkvæði, eða 43,4 prósent. Áslaug Arna hlaut 59 atkvæði varaformannskjörinu eða 3,4 prósent.