Guðrún Hafsteinsdóttir var ósammála ákvörðun Bjarna Benediktssonar að slíta ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins, Vinstri grænna og Framsóknar í október síðastliðnum. „Af því að mér fannst tímapunkturinn rangur,“ sagði Guðrún í nýjasta hlaðvarpsþætti Þjóðmála.
„Við vorum búin að vera í kannski vonlausu samstarfi sem var ekki að skila okkur áfram - en við vorum búin að vera í því í 7 ár. Ég hugsaði að það myndi ekki drepa okkur að vera nokkra mánuði í viðbót vegna þess að ég vildi að vaxtalækkunarferlið væri hafið áður en það yrði slitið,“ sagði Guðrún.
„Ég vildi að við færum inn í kosningabaráttu með árangur og gætum sýnt þjóðinni fram á það að allar þær aðgerðir sem ríkisstjórnin var búin að vera að vinna að til þess að ná niður verðbólgu, að þær væru að virka og að fólk gæti treyst því að verðbólgan er að fara niður. Vextirnir eru að fara að lækka þannig að við höfum getað farið með það áþreifanlegan árangur inn í kosningabaráttuna.“
Vonuðust eftir að uppskera meira
Gísli Freyr Valdórsson, umsjónarmaður Þjóðmála, spurði Guðrúnu hvort hún væri enn þeirrar skoðunar að þetta hafi verið rangur tímapunktur til að slíta ríkisstjórninni.
„Ég lifi oftast þannig að ég lít eiginlega aldrei í baksýnisspegilinn en já að vissu leyti,“ svaraði Guðrún.
Hún sagði að Sjálfstæðismenn hefðu fengið súrefni til sín eftir að tilkynnt var um stjórnarslitin og fólki í flokknum hafi verið létt. Margir flokksmenn hafi því átt von á að flokkurinn myndi uppskera meira í kosningunum en raun bar vitni.
„Þetta var mín persónulega skoðun en ég bar fullt traust til Bjarna Benediktssonar sem var auðvitað verkstjóri ríkisstjórnarinnar og formaður í mínum flokki til þess að meta þessa stöðu og taka ákvörðun þar um.“
Undir lok þáttarins lýsti hún Bjarna sem yfirburða stjórnmálamanni og sagðist alltaf hafa stutt hann sem formann flokksins. Hún tók fram að hún hefði kosið Bjarna í formannslagnum árið 2022.
Fyrr í þættinum sagðist Guðrún telja að Sjálfstæðisflokkurinn hafi gefið alltof mikið eftir í ríkisstjórnarsamstarfinu með Framsókn og Vinstri grænum. Hún sé einnig þeirrar skoðunar að flokkurinn hefði ekki átt að endurnýja samstarfið eftir þingkosningarnar árið 2021.
Flokkur Flokksins kom Guðrúnu að óvörum
Þegar talið barst að niðurstöðum þingkosninganna í lok síðasta árs sagði Guðrún að þau hefðu verið þung. Hún nefndi í því samhengi Suðurkjördæmið þar sem hún er oddviti Sjálfstæðisflokksins. Flokkurinn fékk næst flest atkvæði í kjördæminu eða um 19,6%, rétt á eftir Flokki fólksins sem fékk 20,0%.
„Ég ætla ekkert að fara í grafgötur með það að niðurstaðan voru vonbrigði, hún var vonbrigði fyrir mig. Ég var oddviti í mínu kjördæmi, Suðurkjördæmi, og tapa því til Flokks fólksins. Ég var bara hundfúl. Ég var eiginlega fúl hálfan desember,“ sagði Guðrún
„Ég ber líka ábyrgð á því og ég er búinn að margvelta mér upp úr því, bíddu hvar klikkaði ég? Eitt af því var að ég var bara ekki með augun nógu sterkt á boltanum sem Flokkur fólksins var í mínu kjördæmi“
Hún sagðist hafa verið svo upptekin af því að reyna að halda Samfylkingunni, Miðflokknum og Viðreisn niðri að Flokkur fólksins hafi skautað fram hjá sér.
Hún bendir á að Flokkur fólksins hefði ekki opnað kosningaskrifstofu í kjördæminu og engin frambjóðandi flokksins hafi mætt á kappræður í kjördæminu sem haldnar voru nokkrum dögum fyrir kosningar.
„Maður varð eiginlega ekkert var við Flokk fólksins, bara eiginlega ekki neitt […] Þannig að mér fannst þau bara varla vera í kosningabaráttu,“ sagði Guðrún
„En maður fann mjög sterkt fyrir því í þessari kosningabaráttu að þetta voru leiðtogakjör. Fólk var að kjósa Ingu, það var að kjósa Þorgerði og það var að kjósa Kristrúnu. En við vorum svolítið í vörn og ákveðin þreyta með okkar forystu.
Ég átti alveg samtöl í mínu kjördæmi við fólk sem er búið að kjósa flokkinn í kannski 30 ár og sagði bara „nei, ég ætla ekki að kjósa ykkur Guðrún – nú er ég búinn að fá nóg“ þó ég stæði fyrir framan fólk og sagði „þú átt að kjósa mig“.“
Hún sagði að Sjálfstæðisflokkurinn hefði eiginlega tapað hlutfallslega því sama í öllum kjördæmum. Það sé eitthvað sem Sjálfstæðisflokkurinn og forysta hans þurfi að taka til sín og hugsa hvernig megi gera hlutina betur eftir að hafa fengið verstu kosningu í sögu flokksins.
„Það segir það okkur bara eitt: Fólk vill ekki kjósa okkur […] Það er bara ekki að tengja við það sem við stöndum fyrir. Þetta er bara ósköp einfalt.“