Markaðsaðilar eru vongóðir um að árið 2025 verði hagfellt fyrir fjárfesta á íslenskum hlutabréfamarkaði samkvæmt könnun Viðskiptablaðsins um horfur fyrir árið.

Könnunin var send á 276 markaðs- og greiningaraðila á fimmtudag síðastliðinn og bárust 121 svör sem jafngildir 44% svarhlutfalli.

Nærri helmingur svarenda spáir því að Alvotech verði það félag sem hækkar mest á markaði á árinu 2025.

Matvæla- og lyfjastofnun Bandaríkjanna, FDA, veitti markaðsleyfi fyrir Simlandi, hliðstæðu Alvotech við líftæknilyfið Humira, í febrúar sl. Um er að ræða fyrstu hliðstæðuna með háan styrk og útskiptileika við Humira. Kom hliðstæðan á markað vestanhafs í maí og er seld í um þrjátíu löndum.

Í október sl. tilkynnti Alvotech að FDA hefði veitt leyfi til sölu á Selarsdi, hliðstæðu líftæknilyfsins Stelara, sem notað er til meðhöndlunar á psoriasis, Chrons-sjúkdómi og sáraristilbólgu. Hliðstæðan er þegar komin á markað í Kanada, Japan og Evrópu og mun koma á bandaríska markaðinn í febrúar nk.

Ellefu lyf eru í þróun hjá Alvotech og þar af hefur félagið klárað þróun á þremur nýjum líftæknihliðstæðum. Þær eru hliðstæður við Simponi, sem notað er til meðferðar við sömu sjúkdómum og Stelara, augnlyfinu Eylea, og hliðstæðu við lyfin Prolia og Xgeva.

Sagði Róbert Wessman, forstjóri Alvotech, í samtali við Viðskiptablaðið undir lok síðasta árs að lyfin þrjú verði samþykkt inn á alla lykilmarkaði í lok árs 2025.

Mikil trú á líftæknifélögum

Markaðsaðilar virðast hafa mikla trú á líftæknifyrirtækjum á komandi ári. Rúmlega fimmtungur svarenda spáir því að líftæknifyrirtækið Oculis hækki mest allra á markaði á árinu. Félagið var skráð á aðalmarkað Kauphallarinnar í apríl sl. og varð þar með tvískráð á Íslandi og í Bandaríkjunum. Gengi bréfa félagsins hækkaði um 41% á síðasta ári.

Á eftir Alvotech og Oculis kemur málmleitarfélagið Amaroq, en gengi bréfa félagsins hækkaði um 52% á síðasta ári.  Félagið tilkynnti í lok nóvember að fyrsta framleiðsla og steypa á gulli hefði átt sér stað í Nalunaq-gullnámunni, þar sem framleitt var 1,2 kílógramm af gulli. Í byrjun desember sl. lauk félagið síðan 4,8 milljarða króna hlutafjárútboði á genginu 151 krónur á hlut. Var útboðið stækkað um 37,5%, úr 20 milljónum punda í 27,5 milljónir punda.

Stendur gengi bréfa Amaroq í 189 krónum á hlut þegar þessi grein er skrifuð og hefur því hækkað um fjórðung frá útboði.

Nærri helmingur þátttakenda spáir því að Alvotech verði það félag sem hækki mest á hlutabréfamarkaði á árinu 2025. Róbert Wessman er forstjóri Sýnar.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í Viðskiptablaðinu sem kemur út í fyrramálið. Áskrifendur geta nálgast greinina í heild sinni hér og annað efni úr blaðinu hér.