„Fyrir nokkrum árum síðan lýstum við því yfir að við ætluðum að byrja að greiða 15-20 milljarða króna á ári í arð til ríkisins.
Á þeim tíma fannst fólki það heldur bjartsýnt, en við sáum á hvaða stefnu við vorum og vissum að með breytingum á tekjuhliðinni með nýjum samningum, og með þeirri uppbyggingu sem var að eiga sér stað með nýjum viðskiptavinum og aðhaldi í rekstri, að við myndum ná þessum markmiðum,“ segir Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs hjá Landsvirkjun.
Síðustu tvær arðgreiðslur Landsvirkjunar voru metfjárhæðir í sögu félagsins. Greiddir voru 19,6 milljarðar króna í arð til ríkisins árið 2023 og 15 milljarðar árið 2022. Þá nema heildargreiðslur félagsins til ríkisins á þessu ári, vegna síðasta árs, samtals 50 milljörðum króna. Þar af eru 19,6 milljarðar í arðgreiðslur og rúmir 30 milljarðar í skattgreiðslur, sem helgast af 45 milljarða hagnaði síðasta árs auk skatts af hagnaði við sölu á Landsneti.
Samhliða því að auka arðgreiðslurnar hafa skuldir félagsins lækkað mjög mikið á undanförnum árum og eru nettó skuldir sem hlutfall af rekstrarhagnaði komnar niður í 1,9x, en til samanburðar stóð hlutfallið í 9,0x árið 2010.
Þannig námu nettó skuldir Landsvirkjunar 844 milljónum dala í lok síðasta árs og hafa þær dregist saman um tæplega 70% frá árinu 2010.
Nánar er rætt við Rafnar Lárusson, framkvæmdastjóra fjármálasviðs hjá Landsvirkjun, í Viðskiptablaðinu sem kom út í gærmorgun.