Hlutabréf í málmleitarfyrirtækinu Amaroq, sem heldur á víðtækum rannsóknar- og vinnsluheimildum á Grænlandi, verða tekin til viðskipta á aðalmarkaði Kauphallarinnar þegar markaðir opna á eftir.
Hlutabréfaverð félagsins opna mun opna í kringum 100 krónur á hlut eftir meira en 20% hækkun á einum mánuði á First North- vaxtamarkaðnum í aðdraganda skráningarinnar.
Auðlindafélagið Amaroq Minerals var stofnað árið 2017 með megináherslu á að finna gull og aðra verðmæta málma á Suður-Grænlandi, rannsaka og þróa þau svæði þar sem málma er að finna og vinna þessa málma úr jörðu.
Félagið var skráð á íslenska First North-vaxtarmarkaðinn í byrjun nóvember 2022 en fékk síðan samþykkta beiðni um að flytja sig yfir á aðalmarkað Kauphallarinnar á fimmtudaginn síðastliðinn.
„Á réttri leið til vaxtar“
„Þetta ár hjá Amaroq sem skráð fyrirtæki á First North hefur sýnt okkur að við erum á réttri leið til vaxtar,“ sagði Eldur Ólafsson, forstjóri og stofnandi Amaroq Minerals.
„Á þessum tíma höfum við fundið fyrir auknum áhuga fjárfesta á Amaroq, innlendum sem erlendum, og skráning á Aðalmarkað mun gera okkur enn betur kleift að undirbúa okkur undir framtíðarvöxt.

Amaroq hefur sett svip á íslenska markaðinn á sínum stutta tíma á First North,“ sagði Magnús Harðarson, forstjóri Nasdaq Iceland. „Skráning á Aðalmarkað mun færa Amaroq betri aðgang að stærri hópi fjárfesta og félagið mun njóta aukins sýnileika. Við hlökkum til að halda áfram samstarfi okkar með Amaroq og óskum öllum hjá félaginu og hluthöfum til hamingju með þennan mikilvæga flutning yfir á Aðalmarkaðinn.“
Tugmilljarða virði
Amaroq Minerals var skráð á íslenska First North-vaxtarmarkaðinn í byrjun nóvember 2022 en félagið hefur fengið samþykkta beiðni um að flytja sig yfir á aðalmarkað Kauphallarinnar á fimmtudaginn síðastliðinn.
Hlutabréf Amaroq voru fyrir einnig skráð í TXS Venture kauphöllinni í Kanada og á AIM markaðnum í London.
Markaðsvirði Amaroq er nú tæplega 26 milljarðar króna. Innherji greindi frá því í vikunni að greinandi breska fjárfestingarbankans Panmure Gordon hefði nýlega verðmetið félagið á um 36 milljarða króna.
Samkvæmt heimasíðu Amaroq eru erlendu félögin JLE Property Ltd, First Pecos LLC og Livermore Partners þrír stærstu hluthafar málmleitarfélagsins með samtals 18,9% hlut. Sjóðir í stýringu Akta sjóða fylgja þar á eftir með samtals 5,5% hlut sem er um einn milljarður króna að markaðsvirði.
Eldur Ólafsson, stofnandi og forstjóri Amaroq, er fimmti stærsti hluthafinn með 3,4% hlut sem er um 867 milljónir króna að markaðsvirði.
Félag hjónanna Sigurbjörns Þorkelssonar, sem situr í stjórn Amaroq, og Aðalheiðar Magnúsdóttur er sjötti stærsti hluthafi auðlindafélagsins með 3,1% hlut sem er um 783 milljónir króna að markaðsvirði.