Óli Björn Kárason, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, segir ríkisstjórnina vera með gullið tækifæri í höndunum til að stuðla að víðtækri þátttöku almennings í atvinnulífinu í aðdraganda sölu hlutabréfa í Íslandsbanka.
Í Morgunblaðinu í dag skrifar Óli að öllum megi vera ljóst hve mikilvægt það er að vel takist til við sölu á eignarhlutum ríkisins í Íslandsbanka.
„Fyrir ríkisstjórnina og stjórnarflokkana er það pólitískt nauðsynlegt að framkvæmd sölunnar verði hnökralaus. Fyrir þróun fjármálamarkaðarins skiptir miklu að salan verði til að efla traust almennings á fjármálamarkaðinum í heild sinni og á hlutabréfamarkaðinum sérstaklega,“ skrifar Óli.
Hann vill hins vegar að ríkisstjórnin setji markið hærra en að sala hlutabréfanna takist með skilvirkum hætti þannig að ekki myndist jarðvegur fyrir tortryggni eða vantraust.
„Markmiðið á að vera að ryðja braut fyrir allan almenning til að taka þátt í útboðinu. Í frumútboði á 35% hlut ríkisins í Íslandsbanka í júní 2021 eignuðust yfir 23 þúsund einstaklingar hlut í bankanum. Bankinn varð þar með fjölmennasta almenningshlutafélag landsins. Samkvæmt upplýsingum sem komu fram í umsögn Nasdaq á Íslandi um frumvarpið um sölu Íslandsbankabréfanna tæplega fjórfaldaðist fjöldi þeirra einstaklinga sem eiga skráð hlutabréf frá 2019 til 2023,“ skrifar Óli.
Hann bendir á að á liðnu ári áttu tæplega 31 þúsund einstaklingar skráð bréf.
„Þróunin hefur því verið í rétta átt. Fleiri einstaklingar hafa, með beinum hætti, tekið þátt í fjármögnun atvinnulífsins með þátttöku á hlutabréfamarkaði og um leið gert hann skilvirkari. En það er langt í land. Markmiðið á að vera að allt íslenskt launafólk öðlist fjárhagslegt svigrúm til að fjárfesta í hlutabréfum – ekki síst skráðum bréfum. Í aðdraganda að sölu hlutabréfanna í Íslandsbanka hefur ríkisstjórnin gullið tækifæri til að stuðla að víðtækri þátttöku almennings í atvinnulífinu með kaupum á skráðum hlutabréfum,“ skrifar Óli.
Hann segir að það sé alls ekki óraunsætt markmið að fjöldi einstaklinga sem eiga hlutabréf verði milli 50 og 60 þúsund áður en árið 2025 er úti.
Að mati Óla er besta leiðin til að ná þessu markmiði með því að veita einstaklingum skattalegar ívilnanir með þeim hætti að hægt sé að draga frá tekjuskatti kaup á skráðum hlutabréfum og hlutdeildarskírteinum verðbréfa- og hlutabréfasjóða. Þannig opnist möguleikar fyrir launafólk til að byggja enn frekar upp eignastöðu sína og setja nýja stoð undir eigið fjárhagslegt sjálfstæði.
„Ég hef nokkrum sinnum lagt fram frumvarp þessa efnis ásamt nokkrum félögum mínum í þingflokki Sjálfstæðisflokksins. Í greinargerð er því haldið fram að skattafsláttur vegna hlutabréfakaupa hvetji til aukins sparnaðar af hálfu heimila ásamt því að búa til meiri dýpt á markaði með fjölgun þátttakenda og því fjármagni sem þeim fylgir,“ skrifar Óli.
Í greinargerð frumvarpsins segir að „skattafslátturinn hvetur heimilin til þátttöku í atvinnurekstri og tvinnar því saman hagsmuni þeirra og atvinnulífs, sem leitt getur til meiri meðvitundar meðal almennings um stöðu hagkerfisins og þær afleiðingar sem breytingar í rekstrarumhverfi fyrirtækja, t.d. skattbreytingar eða almenn launaþróun, kunna að hafa í för með sér.“
„Þingmannafrumvörp eiga yfirleitt ekki greiða leið í gegnum þingið – ólíkt stjórnarfrumvörpum. Sé það vilji ríkisstjórnarinnar að stuðla að þátttöku almennings í útboði á bréfum Íslandsbanka og almennt á hlutabréfamarkaðinum, hlýtur innleiðing á almennum hlutabréfaafslætti að verða eitt af forgangsmálum á komandi vetri. Ég hef ástæðu til að ætla að frumvarp þessa efnis njóti stuðnings fleiri en stjórnarþingmanna,“ skrifar Óli.