Verð á gulli fór í fyrsta sinn yfir 3.500 bandaríkja­dali á únsuna í dag, eftir að Donald Trump for­seti Bandaríkjanna gagn­rýndi harð­lega seðla­banka­stjóra landsins, Jerome Powell.

Um leið dró úr gengi bandaríkja­dals og markaðir tóku dýfu, þar sem fjár­festar færðu fjár­magn yfir í hefðbundnar varfærnis­eignir á borð við gull og japanskt jen.

Trump krefst vaxtalækkunar „NÚNA“

Í færslu á sam­félags­miðlinum Truth Social hvatti Trump seðla­banka Bandaríkjanna til að lækka vexti „NÚNA“, og kallaði Powell „Herra of seinn“. Þessi um­mæli komu í kjölfar þess að Powell hafði nýverið varað við því að fyrir­huguð tolla­stefna ríkis­stjórnarinnar gæti leitt til minni hag­vaxtar og aukinnar verðbólgu.

Þrýstingur for­setans á seðla­banka­stjórann hefur vakið upp áhyggjur á mörkuðum um sjálf­stæði seðla­bankans, sem hingað til hefur verið talinn einn af horn­steinum hag­stjórnar Bandaríkjanna.

Markaðir tóku um­svifa­laust við sér. S&P 500 hluta­bréfa­vísi­talan lækkaði um 2,4% og tæknimiðaða Nas­daq-vísi­talan féll um 2,6%. Evrópskir markaðir fylgdu á eftir og lækkuðu samningar tengdir Stoxx Europe 600 lækkuðu um 0,3%.

Á gjald­eyris­mörkuðum féll bandaríkja­dalurinn um 0,2% gagn­vart helstu gjald­miðlum og hefur hann veikst um nær 10% frá áramótum.

Japanska jenið styrktist og fæst um 140,4 jen en bandaríkja­dal um þessar mundir, sem endur­speglar vaxandi áhuga fjár­festa á öruggum eignum í óstöðugu efna­hags­um­hverfi sam­kvæmt Financial Times.

Á skulda­bréfa­markaði jukust ávöxtunar­kröfur lítil­lega. Krafan á 10 ára ríkis­skulda­bréf fór í 4,43% og 30 ára í 4,93%.

Gull­verð hefur hækkað um 33% það sem af er ári, sem margir rekja til aukinnar óvissu í hag­kerfinu og vaxandi ótta við verðbólguþrýsting. Sam­kvæmt greiningu Barcla­ys má sjá aukinn áhuga fjár­festa á gulli, bæði meðal minni aðila og meðal fag­fjár­festa sem sækjast eftir varfærnari eignum.

„Það virðist vera fjár­streymi yfir í gull,“ segir Mitul Kot­echa, yfir­maður gjald­eyris- og ný­markaðs­stefnu hjá Barcla­ys. Hann bendir þó á að þetta sé hluti af víðtækari leit að stöðug­leika í um­róti markaða.

Sér­fræðingar hafa varað við því að hugsan­legt inn­grip for­setans, m.a. með því að reyna að ýta Powell úr em­bætti, gæti grafið undan trúverðug­leika peninga­stefnunnar og aukið verðbólgu­væntingar.

„Hver til­raun sem dregur úr sjálf­stæði seðla­bankans eykur hættuna á verðbólgu, einkum þegar fyrir eru þættir eins og tollar sem hækka verðbólgu­væntingar,“ segir Michael Feroli, aðal­hag­fræðingur JP­Morgan Chase.