Verð á gulli fór í fyrsta sinn yfir 3.500 bandaríkjadali á únsuna í dag, eftir að Donald Trump forseti Bandaríkjanna gagnrýndi harðlega seðlabankastjóra landsins, Jerome Powell.
Um leið dró úr gengi bandaríkjadals og markaðir tóku dýfu, þar sem fjárfestar færðu fjármagn yfir í hefðbundnar varfærniseignir á borð við gull og japanskt jen.
Trump krefst vaxtalækkunar „NÚNA“
Í færslu á samfélagsmiðlinum Truth Social hvatti Trump seðlabanka Bandaríkjanna til að lækka vexti „NÚNA“, og kallaði Powell „Herra of seinn“. Þessi ummæli komu í kjölfar þess að Powell hafði nýverið varað við því að fyrirhuguð tollastefna ríkisstjórnarinnar gæti leitt til minni hagvaxtar og aukinnar verðbólgu.
Þrýstingur forsetans á seðlabankastjórann hefur vakið upp áhyggjur á mörkuðum um sjálfstæði seðlabankans, sem hingað til hefur verið talinn einn af hornsteinum hagstjórnar Bandaríkjanna.
Markaðir tóku umsvifalaust við sér. S&P 500 hlutabréfavísitalan lækkaði um 2,4% og tæknimiðaða Nasdaq-vísitalan féll um 2,6%. Evrópskir markaðir fylgdu á eftir og lækkuðu samningar tengdir Stoxx Europe 600 lækkuðu um 0,3%.
Á gjaldeyrismörkuðum féll bandaríkjadalurinn um 0,2% gagnvart helstu gjaldmiðlum og hefur hann veikst um nær 10% frá áramótum.
Japanska jenið styrktist og fæst um 140,4 jen en bandaríkjadal um þessar mundir, sem endurspeglar vaxandi áhuga fjárfesta á öruggum eignum í óstöðugu efnahagsumhverfi samkvæmt Financial Times.
Á skuldabréfamarkaði jukust ávöxtunarkröfur lítillega. Krafan á 10 ára ríkisskuldabréf fór í 4,43% og 30 ára í 4,93%.
Gullverð hefur hækkað um 33% það sem af er ári, sem margir rekja til aukinnar óvissu í hagkerfinu og vaxandi ótta við verðbólguþrýsting. Samkvæmt greiningu Barclays má sjá aukinn áhuga fjárfesta á gulli, bæði meðal minni aðila og meðal fagfjárfesta sem sækjast eftir varfærnari eignum.
„Það virðist vera fjárstreymi yfir í gull,“ segir Mitul Kotecha, yfirmaður gjaldeyris- og nýmarkaðsstefnu hjá Barclays. Hann bendir þó á að þetta sé hluti af víðtækari leit að stöðugleika í umróti markaða.
Sérfræðingar hafa varað við því að hugsanlegt inngrip forsetans, m.a. með því að reyna að ýta Powell úr embætti, gæti grafið undan trúverðugleika peningastefnunnar og aukið verðbólguvæntingar.
„Hver tilraun sem dregur úr sjálfstæði seðlabankans eykur hættuna á verðbólgu, einkum þegar fyrir eru þættir eins og tollar sem hækka verðbólguvæntingar,“ segir Michael Feroli, aðalhagfræðingur JPMorgan Chase.