Gullverð heldur áfram að hækka og verð á einni únsu náði í fyrsta sinn yfir 3.000 dollara. Hækkunina má rekja til mikilla gullkaupa Seðlabanka, óvissu í alþjóðamálum og efnahagsstefnu Donalds Trumps.

Þetta kemur fram í grein hjá Bloomberg.

Verð á gulli hefur tífaldast síðastliðinn aldarfjórðung og skilað betri ávöxtun en S&P 500-hlutabréfavísitalan sem hefur fjórfaldast á sama tímabili.

Þá hefur verð á gulli hækkað um 45% frá byrjun árs 2024 á meðan S&P 500 hefur hækkað um 16%. Eins og sjá má á grafinu hér að neðan var verðþróun gulls og S&P 500 vísitölunnar nokkuð svipuð þar til á þessu ári þegar hlutabréfamarkaðir tóku lækkunum og gull miklum hækkunum.

Verð á gulli hækkar að jafnaði þegar efnahagslegur og/eða pólitískur órói ríkir.

Þannig fór verð á gulli yfir 1.000 dala múrinn í kjölfar fjármálakreppunnar 2008 og fór yfir 2.000 dali á tímum Covid-faraldursins.

Gullverð upp í 3.500 dali á árinu

Eftir að faraldurinn leið hjá lækkaði gullverð á ný. Það tók síðan að hækka aftur árið 2023, á sama tíma og seðlabankar um allan heim fóru að kaupa gull í stórum stíl til að draga úr áhættu sem fylgir því að eiga stóran hluta gjaldeyrisforðans í Bandaríkjadollar. Þá hefur óvissa í tengslum við alþjóðamálin haft mikil áhrif á gullverð á undanförnum misserum.

Greinendur telja að gullverð muni hækka enn frekar á þessu ári. Þannig telja greinendur á vegum ástralska fjármálafyrirtækisins Macquarie að gullverð fari upp í 3.500 dali á únsu á þriðja ársfjórðungi þessa árs.