Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands ákvað fyrir tveimur vikum að halda stýrivöxtum óbreyttum í 9,25%. Það var fjórða vaxtaákvörðun nefndarinnar í röð þar sem hún ákvað halda vöxtum óbreyttum.
Í fundargerð nefndarinnar, sem birt var fyrir skemmstu, kemur fram Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, hafi greitt atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra um að halda vöxtum óbreyttum en hann vildi fremur lækka vexti um 0,25 prósentur, úr 9,25% í 9,0%. Aðrir nefndarmenn greiddu atkvæði með tillögunni.
Þetta er annar vaxtaákvörðunarfundur nefndarinnar í röð sem Gunnar greiðir atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra og bókar afstöðu um að hann vilji frekar lækka vexti um 25 punkta.
Í fundargerðinni segir að Gunnar hafi talið stöðuna vera að mestu leyti svipaða og á síðasta fundi „en að óvissan hefði minnkað vegna undirskriftar stefnumarkandi kjarasamninga á almennum vinnumarkaði“.
„Þá hefðu raunvextir áfram hækkað hratt og þrengt frekar að heimilum og atvinnulífi. Einnig ættu áhrif fyrri vaxtahækkana eftir að koma fram. Í ljósi stöðunnar og þeirra gagna sem lægju fyrir nefndinni væri rétt að hefja vaxtalækkunarferlið í smáum skrefum.“
Á síðasta ári greiddi Gunnar í tvígang atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra á fundum peningastefnunefndar en hann vildi ekki hækka stýrivexti jafn mikið og aðrir nefndarmenn á vaxtaákvörðunarfundum í maí og ágúst 2023.