Líkur hafa aukist á að vaxtalækkunarferli gæti hafist í mars en það velti ekki síst á þróun kjaraviðræðna, verðbólgumælingu febrúarmánaðar og þróun skammtíma hagvísa varðandi ferðaþjónustu og einkaneyslu.
Þetta kemur fram í grein Jóns Bjarka Bentssonar aðalhagfræðings Íslandsbanka sem birtist í dag.
Í gær greindi Viðskiptablaðið frá því að Gunnar Jakobsson, varaseðlabankastjóri fjármálastöðugleika, hafi greitt atkvæði gegn tillögu seðlabankastjóra um að halda stýrivöxtum óbreyttum fyrr í mánuðinum. Gunnar vildi fremur lækka vexti um 0,25 prósentur, þannig vextir færu niður í 9,0%.
Jón Bjarki bendir á að almennt séu tvær leiðir sem meðlimir peningastefnunefndar fara ef þeir eru ekki sáttir við uppástungu seðlabankastjóra, annars vegar að bóka stuðning við tillöguna en að viðkomandi hafi fremur kosið aðra ákvörðun og hins vegar að greiða atkvæði gegn tillögunni og bóka að viðkomandi hefði viljað aðra niðurstöðu.
Síðari leiðin, sú sem Gunnar fór, sé augljóslega talsvert sterkara merki um ágreining við ákvörðun meirihlutans en slíkt hafi fimm sinnum verið gert frá ársbyrjun 2021.
Í þremur tilvikum greiddi nefndarmeðlimur atkvæði um minna aðhald og var það Gunnar í hvert skipti. Segir Jón Bjarki að Gunnar virðist þannig hafa fest sig í sessi sem svokölluð vaxtadúfa nefndarinnar. Í heild hafi hann verið ósammála tillögu seðlabankastjóra í sex skipti af þeim sautján vaxtaákvörðunum sem tilkynntar hafa verið.
Til samanburðar hafi til að mynda hinn varaseðlabankastjórinn, Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, ávallt fallið með tillögu seðlabankastjóra.
Kjarasamningar, Grindavík og ferðaþjónustan hafi áhrif
Helstu rök fyrir því að halda stýrivöxtum óbreyttum þar til í febrúar voru, samkvæmt fundargerð peningastefnunefndar, að verðbólga væri enn mikil, mikil óvissa væri um niðurstöður kjarasamninga og aðgerðir stjórnvalda vegna Grindavíkur sköpuðu óvissu um aðhald ríkisfjármála, meðal annars.
Á móti hafi helstu rök fyrir lækkun vaxta meðal annars verið þau að nýjustu gögn sýndu að aðhald peningastefnunnar hefði verið nægjanlegt undanfarið og að raunvextir Seðlabankans hefðu ekki verið hærri síðan 2012 og allt bendi til að þeir myndu hækka töluvert til viðbótar á næstu mánuðum.
Jón Bjarki bendir á að eitt og annað hafi borið til tíðinda frá því í byrjun mánaðar en nýjustu gögn bendi til áframhaldandi samdráttar einkaneyslu og heldur hægari vaxtar þjónustuútflutnings en vænst var, væntingavísitala hafi mælst yfir 100 stigum í janúarmánuði í fyrsta sinn í tæp tvö ár, útgefnar verðbólguspár gerðu ráð fyrir allnokkri hjöðnun verðbólgu í febrúar, og hækkun íbúðaverðs á höfuðborgarsvæðinu í janúar var í takt við spár Íslandsbanka.
Fyrir næstu stýrivaxtaákvörðun þann 20. mars næstkomandi telur Jón Bjarki að það helsta sem muni hafa áhrif á ákvörðun nefndarinnar séu niðurstöður kjarasamninga, vöxtur ferðaþjónustunnar, mótvægisaðgerðir fyrir íbúa Grindavíkur, verðbólguþróun, og raunvextir og verðbólguálag á markaði.
„Í nýjustu stýrivaxtaspá okkar gerðum við ráð fyrir að vaxtalækkunarferli hæfist í maí. Við höldum okkur við þá spá að sinni. Í ljósi fundargerðarinnar og nýjustu hagtalna hafa líkur þó aukist á því að vaxtalækkunarferlið hefjist í marsmánuði.“