Eignarhaldsfélagið Kóngsbakki, sem er í eigu hjónanna Gunnars Örlygssonar og Guðrúnar Hildar Jóhannsdóttur, seldi 0,73% hlut í flugfélaginu Play í síðasta mánuði og fer nú með 1,28% hlut. Þetta má sjá á uppfærðum hluthafalista flugfélagsins.
Miðað við meðalgengi Play í síðasta mánuði má ætla að Kóngsbakki hafi selt bréf í flugfélaginu fyrir tæplega 127 milljónir króna. Eftirstandandi 1,3% hlutur Kóngsbakka í Play er um 217 milljónir að markaðsvirði.
Kóngsbakki stækkaði hlut sinn í Play í febrúarmánuði og komst þá á lista yfir tuttugu stærstu hluthafa flugfélagsins með um 2% hlut. Fyrir átti eignarhaldsfélagið um 1,2% að því er Innherji greindi frá fyrr í ár.
Gunnar Örlygsson og Guðrún Hildur Jóhannsdóttir seldu sjávarafurðafyrirtækin IceMar í Keflavík og AG seafood í Sandgerði síðasta haust til bandaríska fyrirtækisins Sealaska. Gunnar stýrir fyrirtækjunum tveimur áfram.
Sjá einnig: Selur IceMar og AG Seafood
Lífeyrissjóðurinn Festa kemur nýr inn á listann yfir stærstu hluthafa Play og fer með 1,7% hlut í flugfélaginu sem er nærri 300 milljónir að markaðsvirði. Festa er þriðji lífeyrissjóðurinn sem kemst inn á listann en Birta og Lífsverk hafa verið meðal stærstu hluthafa flugfélagsins eftir að hafa tekið þátt í hlutafjárútboði Play í apríl 2021.