Gylfi Sigurðsson knattspyrnukappi stefnir á að flyta til Íslands þegar ferli hans lýkur úti. Síðasta sumar samdi Gylfi við Swansea til fjögurra ára. Stefnan er að ná tveimur árum með FH hér á landi áður en ferlinum lýkur en Gylfi byrjaði að æfa með FH þegar hann var rétt um þriggja ára gamall. „Fyrsta daginn eftir síðasta leikinn þá flyt ég strax til Íslands. Ég verð þá vonandi hálft ár á Íslandi og hálft ár erlendis,“ segir Gylfi sem segist sakna Íslands. „Já rosalega mikið. Þegar maður bjó á Íslandi gat maður ekki beðið eftir að flytja í burtu en þegar maður er búinn að vera úti í nokkur á þá langar manni að vera heima með fjölskyldunni. Maður þekkir allt og er núorðið smá túristi þegar maður kemur heim og fer upp á jökul og gerir svona hitt og þetta.“
Þrátt fyrir ungan aldur var Gylfi alltaf ákveðinn að vilja fara út ungur og sér ekki eftir þeirri ákvörðun. Hann var ekki nema rúmlega 15 ara gamall þegar hann byrjaði í unglingastarfinu hjá Reading og var komin í aðalliðið tæplega tvítugur. „Þetta var eiginlega alveg frábært. Þetta var það eina sem ég vildi gera. Mig langaði strax að fara út og spila fótbolta á grasi í tólf mánuði á ári. Ég gat ekki hugsað mér annað og því var þetta það eina í stöðunni. Við vorum með góðan þjálfara sem sem leiddi unglingastarfið og það komu strákar bæði frá Englandi og víðar að.“
Gylfi er í ítarlegu viðtali í Eftir vinnu blaði Viðskiptablaðsins sem kemur út á morgun.