Markaðsvirði rafmyntamarkaðarins fór undir þúsund milljarða Bandaríkjadala í fyrsta sinn síðan í janúar 2021 í morgun. Gengi rafmyntarinnar bitcoin hefur fallið um tæplega 18% á síðasta sólarhring og er nú 65% lægra en þegar hún náði sínu hæsta gildi í nóvember síðastliðnum. Lækkanir á rafmyntamarkaðnum virðast ekki koma Gylfa Magnússyni, hagfræðiprófessor við HÍ og formanni bankaráðs Seðlabankans, á óvart.
„Bitcoin búið að lækka í verði um 65% frá hæsta gildi og komið í um 24 þús. dollara. Sem er þó enn svona um það bil 24 þús. dollurum yfir raunvirði,“ skrifar Gylfi í færslu á Facebook.
Hann svarar jafnframt spurningu í kommentakerfinu um samanburð við gull. „Gullverð fer aldrei niður í 0 enda hefur það eitthvert notagildi (og skrautgildi),“ skrifar Gylfi.
Sjá einnig: Nærri tíundi hver fjárfest í rafmyntum
Í ritinu Fjármálastöðugleiki, sem Seðlabankinn gaf út í mars, kom fram að 8,7% af Íslendingum hefðu fjárfest í sýndareignum samkvæmt könnun sem Gallup framkvæmdi. Um 88% þeirra sem svöruðu játandi sögðust eiga bitcoin.