Peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands hækkaði stýrivexti um eitt prósent fyrir tveimur vikum, úr 3,75% í 4,75%, samkvæmt tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra. Allir nefndarmenn peningastefnunefndar studdu tillöguna nema Gylfi Zoëga, hagfræðiprófessor við HÍ, sem „hefði þó fremur kosið að hækka vexti bankans um 1,25 prósentur“ þótt nefndin hafi almennt rætt um hækkun vaxta á bilinu 0,75-1 prósentu. Þetta kemur fram fundargerð peningastefnunefndar sem birt var í dag.

Fram kemur að nefndin hafi einnig rætt um beitingu annarra stjórntækja í peningamálum. „Skoða þyrfti frekar stjórntæki til stýringar á lausu fé í umferð sem nota mætti m.a. til þess að stýfa gjaldeyrisinngrip bankans þegar svo ber undir.“

Nefndin sagði að helsti rökstuðningur fyrir hækkun stýrivaxta hafi verið að raunvextir hefðu lækkað áfram þrátt fyrir hækkun meginvaxta í maí og „væru verulega neikvæðir“. Raunvextir væru jafnframt langt undir jafnvægisraunvöxtum og væri stuðningur peningastefnunnar við þjóðarbúskapinn því enn töluverður.

Nefndin segir að nauðsynlegt hafi verið að draga úr þeim stuðningi með frekari hækkun nafnvaxta en lækkun verðbólguvæntinga myndi einnig hafa áhrif á raunvaxtastigið. Nefndarmenn lögðu áherslu á að hækkun verðbólguvæntinga undanfarið væri mikið áhyggjuefni en að hækkun vaxta myndi stuðla að því að verðbólga og verðbólguvæntingar færðust nær markmiði á ný.

Næsta yfirlýsing peningastefnunefndarinnar verður birt miðvikudaginn 24. ágúst næstkomandi.