Gylfi Zoëga hefur líklega setið sinn síðasta fund hjá peningastefnunefnd Seðlabanka Íslands en hann hættir formlega í nefndinni þann 20. febrúar næstkomandi. Rannveig Sigurðardóttir, varaseðlabankastjóri peningastefnu, tilkynnti þetta á kynningarfundi Seðlabankans í morgun.
Gylfi, sem er hagfræðiprófessor við Háskóla Íslands, hefur setið í peningastefnunefndinni frá 2009 eða í þrjú skipunatímabil. „Ef lögum um Seðlabankann verður ekki breytt þá mun hann verða sá nefndarmaður sem hefur setið lengst,“ sagði Rannveig á fundinum.
Samkvæmt lögum um Seðlabanka Íslands skal peningastefnunefnd skipa seðlabankastjóra, varaseðlabankastjóra peningastefnu, varaseðlabankastjóra fjármálastöðugleika og tvo sérfræðinga á sviði efnahags- og peningamála sem ráðherra skipar til fimm ára í senn. Samkvæmt gildandi lögum getur ráðherra aðeins skipað sama mann í peningastefnunefnd tvisvar sinnum.
Gylfi hefur oft á tíðum kallað eftir meiri vaxtahækkunum á fundum peningastefnunefndar en ákveðið var. Á þremur af sex fundum hennar í fyrra vildi Gylfi hækka stýrivexti meira en gert var.
Gylfi starfaði um tíma sem hagfræðingur hjá Alþjóðabankanum og OFCE í París. Hann lauk doktorsprófi í hagfræði frá Columbia háskóla í New York árið 1993.
![Peningastefnunefnd Seðlabankans. Efri röð: Herdís Steingrímsdóttir, Gylfi Zoëga, Gunnar Jakobsson. Neðri röð: Ásgeir Jónsson og Rannveig Sigurðardóttir](http://vb.overcastcdn.com/images/117707.width-800.jpg)
© Aðsend mynd (AÐSEND)