Allir nefndarmenn peningastefnunefndar Seðlabanka Íslands studdu tillögu Ásgeirs Jónssonar seðlabankastjóra um að hækka stýrivaxta um 0,25 prósentur, upp í 6,0%, fyrir tveimur vikum nema Gylfi Zoëga sem hefði fremur kosið að hækka vexti um 0,5 prósentur. Þetta kemur fram í fundargerð nefndarinnar sem var birt fyrir skemmstu.

Nefndin fjallaði á fundi sínum fyrir síðustu vaxtaákvörðun um að verðbólga hefði aukist lítillega í október, upp í 9,4%, auk þess að verðbólguálag á skuldabréfamarkaði til lengri tíma hafði hækkað nokkuð. Gengi krónunnar lækkaði einnig frá októberfundi nefndarinnar.

Nefndarmenn töldu að bæði væru rök fyrir að halda meginvöxtum óbreyttum, hækka þá um 0,25 eða 0,5 prósentur.

Jón Bjarki Bentsson, aðalhagfræðingur Íslandsbanka, bendir á, í færslu á Twitter, að Gylfi vildi einnig hækka vexti meira en gert var í júní og ágúst í ár.