Hagnaður Kirkbi, fjárfestafélag Lego-fjölskyldunnar, nam 3,7 milljörðum danskra króna í fyrra sem samsvarar 74 milljörðum íslenskra króna á gengi dagsins.
Samkvæmt Børsen átti fjárfestingafélagið þó heldur stormasamt ár þar sem afskriftir settu strik í reikninginn.
Kirkbi þurfti að afskrifa um 1,8 milljarða danskra króna í tveimur Legoland-skemmtigörðum í eigu Merlin Entertainments en Kirkbi á 47,5% hlut í fyrirtækinu. Afskriftirnar eru hluti af um milljarða dala tapi Merlin í fyrra.
Aldrei gott að borga of mikið
Þá þurfti Kirkbi að færa niður bókfært virði eignarhlutar síns í kennsluforritinu Brainpop um 2,8 milljarða danskra króna. Kirkbi keypti fyrirtækið fyrir 6 milljarða danskra króna árið 2022.
„Þetta er aldrei gott því þetta sýnir að við höfum borgað of mikið fyrir félagið,“ segir Søren Thorup Sørensen, framkvæmdastjóri Kirkbi í samtali við Børsen. „Við sjáum ekki eftir fjárfestingunni en við sjáum eftir því að þurfa að færa virðið niður,“ segir Sørensen.
Stærsta eign félagsins er 75% hlutur í The Lego Group en hagnaður félagsins jókst um 20,7% milli ára og skilaði 16,4 milljörðum danskra króna hagnaði fyrir skatt.
„Þegar öllu er á botninn hvolft var þetta ágætis ár,“ segir Sørensen.