Ron Vachris, forstjóri Costco í Bandaríkjunum, hefur tilkynnt umtalsverðar launahækkanir fyrir flesta starfsmenn verslunarkeðjunnar þar í landi. Hann segir launahækkanirnar vera mun hærri en þekkjast innan bandaríska smásöluiðnaðarins.
Í minnisblaði frá forstjóranum kemur fram að starfsmenn verslana, sem eru ekki í stéttarfélögum, muni þéna allt að 30 dali, eða um 4.250 krónur, á hvern unninn klukkutíma.
Reuters greinir frá því að launahækkanirnar fyrir starfsmenn Costo verði innleiddar í mismunandi áföngum á næstu þremur árum. Eftir það verða laun starfsmanna svo hækkuð aftur um einn dal á hverju ári næstu tvö árin eftir það.
Costco hefur einnig farið öðruvísi leið en mörg önnur fyrirtæki vestanhafs með því að neita að leggja niður hina svokölluðu DEI-ráðningarstefnu, þar sem jaðarsettir einstaklingar innan samfélagsins eru ráðnir til auka fjölbreytileika fyrirtækisins.
Sú stefna hefur verið gagnrýnd af bæði Donald Trump Bandaríkjaforseta og mörgum lögfræðingum en hátt í 19 bandarískir dómarar undirrituðu sameiginlegt bréf til Vachris þar sem hann var hvattur til að víkja frá þeirri ráðningarstefnu.
„Þrátt fyrir yfirlýsingu Costco um að fyrirtækið vilji gera hið rétta, þá er augljóst að það sé að gera eitthvað rangt. Keðjan virðist vilja viðhalda þeirri stefnu um DIE-ráðningar, sem bæði dómstólar og fyrirtæki hafa áður lýst sem mismunun. Costco ætti að koma eins fram við alla sína starfsmenn frekar en að byggja sig upp á sundrun og mismunun gagnvart starfsfólki sínu,“ segir í bréfinu sem Costco hefur ekki enn ekki svarað.