Það var fyrir nokkra tilviljun að Eggert Dagbjartsson, sem var í ítarlegu viðtali í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins, kom að uppbyggingu Reykjavík EDITION hótelsins, en hádegismatur með fyrrverandi bankastjóra Arion banka varð kveikjan að aðkomu hans að verkefninu.
„Þetta kom þannig til að ég fór í hádegisverð með Höskuldi Ólafssyni, þáverandi bankastjóra Arion banka. Við ræddum saman og hann spurði mig út í hvað ég væri að gera úti í Bandaríkjunum. Ég sagði honum frá því og kom inn á það að við værum mikið í flóknum og erfiðum verkefnum. Í kjölfarið sagði hann mér frá þessu hótelverkefni við Hörpuna og spurði hvort ég vildi ekki skoða það. Ég skoðaði verkefnið og áttaði mig á því að eina leiðin til þess að leysa það farsællega af hendi væri það að flytja inn sérfræðiþekkingu. Enginn hefur áður byggt fimm stjörnu hótel hér á landi og því var nauðsynlegt að fá inn erlenda sérfræðinga sem höfðu reynslu af því. Mitt hlutverk var að finna erlenda fjárfesta og það vildi svo heppilega til að Richard Friedman hjá Carpenter & Company, sem hefur mikla reynslu af því að byggja fimm stjörnu hótel, hafði áhuga á verkefninu og var til í að leggja því lið."
Nánar er rætt við Eggert í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .