Fag­fjár­festar sem stýra þúsundum milljarða bandaríkja­dala, þar á meðal líf­eyris­sjóðir og vá­tryggingafélög, hafa á undan­förnum vikum hafið mark­vissa sölu á bandarískum eignum.

Sam­kvæmt greiningu frá bandarískum fjár­festingar­bönkum sem Financial Times greinir frá er þessi þróun ekki tíma­bundin, heldur hluti af víðtækari viðsnúningi í áherslum alþjóð­legs fjár­magns­flæðis.

Ástæður liggja meðal annars í ófyrir­sjáan­legri efna­hags­stefnu í Bandaríkjunum, gagn­rýni for­seta á Seðla­banka landsins, óvissu í tengslum við tolla auk hækkandi verðlags á bandarískum hluta­bréfum.

Bandaríkja­dalur hefur lækkað um meira en 7% gagn­vart helstu gjald­miðlum það sem af er ári og fjár­mála­stofnanir greina frá kerfis­bundnu sölu­ferli.

„Þróunin er farin af stað. Hún verður hæg en óum­flýjan­leg,“ segir Luca Paolini, sér­fræðingur hjá Pictet Asset Mana­gement.

Hann nefnir að hagstæð verðlagning á evrópskum hluta­bréfum og aukin fjár­festing í varnar­málum, leidd af Þýska­landi, geri Evrópu að „rökréttasta val­kostinum“ fyrir fjár­festa sem eru að endur­meta áhættu­dreifingu sína.

Sam­kvæmt nýrri könnun Bank of America minnkaði vægi bandarískra hluta­bréfa í eignasöfnum fjár­festa í mars meira en nokkru sinni fyrr.

Jafn­framt var til­færsla fjár­magns frá Bandaríkjunum til Evrópu sú hraðasta frá árinu 1999.

Út­flæði úr evrópskum sjóðum sem fjár­festa í bandarískum skulda­bréfum og hluta­bréfum nam 2,5 milljörðum evra í apríl, það mesta frá byrjun árs 2023, að því er gögn frá Morningstar Direct sýna.

„Við sjáum viðsnúning á lang­varandi mynstri þar sem bandarískir markaðir hafa verið kjör­lendi fjár­festa um ára­bil,“ segir Kenneth Lamont, sér­fræðingur hjá Morningstar.

Hann bendir á að hluti breytingarinnar sé knúinn áfram af „þjóðrækni“ evrópskra fjár­festa sem séu nú að beina fjár­magni í inn­lend svið á borð við varnar­mál og inn­viða­upp­byggingu.

Nokkrir stórir evrópskir og ástralskir líf­eyris­sjóðir hafa undan­farið dregið úr áhættutöku í Bandaríkjunum.

Veritas-líf­eyris­sjóður í Finn­landi lækkaði vægi bandarískra hluta­bréfa á fyrsta árs­fjórðungi.

Fjár­festinga­stjóri sjóðsins, Laura Wickström, sagði verðlagningu of háa og benti á „óvissu og óljósa orðræðu um tollamál“ sem ástæður.

UniS­uper í Ástralíu, með 149 milljarða ástralskra dala undir stjórn, hefur til­kynnt að endur­skoðun á vægi bandarískra eigna sé hafin.

„Við höfum senni­lega séð há­punkt í fjár­festingum í Bandaríkjunum,“ sagði fjár­festinga­stjórinn John Pearce í ný­legum hlað­varpsþætti sjóðsins.

Danskir líf­eyris­sjóðir seldu bandarísk hluta­bréf í fyrsta sinn frá 2022 og keyptu evrópsk bréf í mestum mæli síðan 2018.

Sam­kvæmt greiningu frá BNP Pari­bas gæti það þýtt að allt að 300 milljörðum evra verði komið úr dollar­eignum ef evrópskir sjóðir færa eigna­hlut­föll sín til samræmis við árið 2015.

Evran styrkist og þýsk skulda­bréf skjól

Ólíkt hefðbundnu mynstri hefur evran styrkst á sama tíma og eftir­spurn eftir þýskum ríkis­skulda­bréfum hefur aukist sem er merki um að fjár­festar leiti nú skjóls annars staðar en í Bandaríkjunum.

Bæði Bank of America og Deutsche Bank greina frá mark­vissri sölu dollara í spott­markaði af hálfu stofnana­fjár­festa og sölu dollar­eigna með til­færslu í evrur og evrópsk eignasöfn.

„Við sjáum nú raun­veru­legt fjár­magn, þ.e. stofnana­fjár­festa, selja dollar í auknum mæli,“ segir Thanos Vamvakidis, yfir­maður gjald­miðla­stefnu hjá Bank of America.

Þróunin hefur vakið spurningar einnig innan Bandaríkjanna. Scott Chan, fjár­festinga­stjóri CalSTRS, stærsta kennaralíf­eyris­sjóðs Kali­forníu (með $350 milljarða í eignum), sagði á stjórnar­fundi í vikunni:

„Ein af ófyrir­séðum af­leiðingum tolla­stefnu gæti verið að stærstu við­skiptalönd okkar fari að selja bandarískar eignir. Spurningin er hvort við þurfum meiri fjöl­breytni, því eigna­safnið okkar er mjög Bandaríkja­miðað.“