Greining Íslandsbanka spáir því að ársverðbólga mælist 5,9% í júlí sem þýðir um 0,1% hækkun á ársgrundvelli.
Samkvæmt spánni verður hjöðnun verðbólgu hæg allra næstu misseri en hraðari þegar líða fer á haustið.
Ef spá greiningardeildarinnar gengur eftir verður ársverðbólga 5% í lok árs.
Að mati bankans mun verðbólgan ekki ná verðbólgumarkmiði Seðlabankans á spátímanum en verður komin ansi nálægt því árið 2026.
Að mati greiningardeildarinnar setja sumarútsölur svip sinn á mælinguna eins og venjan er í júlímánuði. Árstíðabundin hækkun flugfargjalda útskýrir stærstan hluta hækkunarinnar auk þess sem húsnæðisliðurinn hækkar.
„Stærstan hluta hækkunar VNV útskýrir árviss hækkun flugfargjalda. Þar sem samdráttur er farinn að gera vart við sig í ferðaþjónustu þetta sumarið miðað við sama tíma í fyrra verður hækkun flugfargjalda með minna móti en ella. Við spáum því að liðurinn ferðir og flutningar hækki um 1,4% (0,21% áhrif á VNV), þar af útskýrir 9,8% hækkun flugfargjalda (0,17% áhrif á VNV) stærstan hluta,” segir í spá bankans sem Birkir Thor Björnsson hagfræðingur skrifar.
Samkvæmt spánni hafa sumarútsölurnar mikil áhrif á vísitölu neysluverðs. Föt og skór lækka um 10,22% og hafa um -0,36% áhrif á VNV, samkvæmt spá bankans. Húsgögn og heimilisbúnaður lækka einnig um 1,5% og hafa -0,08% áhrif á VNV.

© Skjáskot (Skjáskot)
„Vegurinn í átt að verðbólgumarkmiði hefur verið holóttur á fyrri hluta árs. Má þar helst nefna áhrif jarðhræringa á húsnæðismarkað síðustu mánuði. Þau áhrif virðast nú hafa komið fram að mestu leyti. Hins vegar er eldvirkni og jarðhræringum á Reykjanesskaga líklega langt frá því lokið. Áfram er því hætta á að innviðir og fasteignir geti orðið fyrir verulegu tjóni víðar en í Grindavík. Það gæti til að mynda sett strik í reikninginn við framboð á orku, sem og haft neikvæð áhrif á þróun ferðaþjónustu og annarrar atvinnustarfsemi á suðvesturhorni landsins á komandi misserum,“ segir í spá bankans.