Bandarískir neytendur eru ekki jafn sólgnir í hágæða tekíla og áður. Þannig hefur ásókn þeirra í mexíkóskt tekíla minnkað og færst yfir í ódýrari áfengistegundir.

Sala á mexíkósku áfengi tók mikinn kipp á síðastliðnum áratug og varð næstvinsælasta áfengistegund Bandaríkjanna á eftir vodka.

Hágæða vörumerki, þar á meðal Casamigos frá Diageo og Patrón frá Bacardi, hafa brugðist við sölusamdrætti með að lækka verð í meira en ár, samkvæmt greiningu frá greiningarfyrirtækinu Bernstein.

Samkvæmt greiningarfyrirtækinu IWSR seldist 750 ml flaska af Casamigos Blanco áður fyrir meira en 45 dollara að jafnaði, en nú fæst hún á allt niður í 40 dollara, eftir staðsetningu.

Sala á tekíla, meskal og öðrum agave áfengistegundum var nokkuð stöðug í Bandaríkjunum árið 2024, samkvæmt IWSR. Sala á hágæða tekíla, sem kostar á bilinu 45 til 99,99 dollara, dróst saman, á meðan salan jókst á tekíla sem kostar á bilinu 22,50 til 44,99 dollara.