Markaðshlutdeild Tesla dróst verulega saman í Noregi og Svíþjóð í síðasta mánuði, samanborið við janúar árið 2024.

Þannig voru 405 nýjar Tesla bifreiðar nýskráðar í Svíþjóð í síðasta mánuði, sem er 44% samdráttur frá því í janúar 2024. Á sama tíma drógust nýskráningar saman um 38% í Noregi, niður í 689 bíla.

Þessi þróun átti sér stað þrátt fyrir að eftirspurn eftir bílum hafi almennt séð verið mikil í báðum löndum í síðasta mánuði.

Þó að Tesla Model Y crossover jeppinn hafi verið mest seldi bíllinn í báðum löndunum í fyrra, hefur ímynd fyrirtækisins beðið hnekki undanfarnar vikur, samkvæmt könnun á markaðsviðhorfum sem sænska félagið Novus Group gerði, samkvæmt sænsku fréttastofunni TT.

Auk þess að styðja eindregið við bandaríska forsetann Donald Trump hefur Elon Musk, forstjóri Tesla, einnig tjáð sig frjálslega um pólitík í Evrópu og víðar, sem hefur ekki fallið vel í kramið víða um álfuna, þar á meðal hjá forsætisráðherra Noregs.