Í nýrri greiningu Bergþóru Baldurs­dóttur, hag­fræðings hjá Greiningar­deild Ís­lands­banka, kemur fram að íbúða­markaðurinn á Ís­landi sé að leita í eðli­legra horf eftir miklar sveiflur síðustu misseri.

Þróunin bendir til aukins jafn­vægis milli fram­boðs og eftir­spurnar, sem gæti haft áhrif á verðþróun og aðstæður kaup­enda og selj­enda á næstu mánuðum.​

Sam­kvæmt gögnum Húsnæðis- og mann­virkja­stofnunar (HMS) hækkaði íbúða­verð um 0,36% í mars 2025 frá fyrri mánuði.

Þetta er þriðji mánuðurinn í röð með hækkun, en hækkunin er hóf­leg miðað við fyrri mánuði.

Sér­býli á höfuð­borgar­svæðinu leiddi þessa hækkun með 1,6% verðhækkun milli mánaða, eftir 2,3% lækkun í febrúar. Hins vegar lækkaði verð á fjöl­býli á bæði höfuð­borgar­svæðinu og lands­byggðinni.​

Ár­staktur íbúða­verðs heldur áfram að lækka

Verðhækkanir hafa verið mestar á lands­byggðinni, um 10,4% á undan­förnu ári, saman­borið við 7,1% á höfuð­borgar­svæðinu.

Sér­býli hefur hækkað hraðar en fjöl­býli á báðum svæðum. Búist er við að ár­stakturinn haldi áfram að lækka á næstu mánuðum þegar stórir hækkunar­mánuðir frá síðasta vori og sumri detta út úr ár­s­taktinum.​

Eftir­spurn á íbúða­markaði jókst tíma­bundið árið 2024 vegna elds­um­brota á Reykja­nes­skaga, sem leiddi til þess að íbúar Grinda­víkur þurftu að finna sér nýtt húsnæði. Þetta jók eftir­spurn á markaðnum til muna.

Þegar líða tók á árið hægði á eftir­spurninni og ljóst að Grinda­víkuráhrifin höfðu að mestu fjarað út. Á fyrstu mánuðum ársins 2025 hafa um­svifin aukist aðeins, sér­stak­lega í mars, þar sem yfir þúsund kaup­samningar voru gerðir, sem er mesti fjöldi frá ágúst og septem­ber árið áður.​

Fram­boð íbúða til sölu hefur aukist veru­lega

Í byrjun apríl voru nær 4.000 eignir til sölu á höfuð­borgar­svæðinu, þar af tæp­lega 2.100 nýbyggingar, sem er um 53% af heildar­fram­boði.

Þetta er hæsta hlut­fall nýbygginga sem mælst hefur. Sam­kvæmt mæla­borði HMS eru um 6.300 íbúðir í byggingu á landinu öllu, og má vænta að fram­boð nýrra íbúða verði stöðugt á markaðnum á næstu misserum.​

Með auknu fram­boði hefur meðalsölutími íbúða lengst tals­vert. Í janúar 2025 var meðalsölutími íbúða á sjötta mánuði, sem er aukning um tvo mánuði frá miðju síðasta ári.

Sölutími nýbygginga hefur lengst meira en á eldra húsnæði; úr fimm mánuðum frá síðasta vori í 14 mánuði í febrúar 2025.

Bergþóra bendir á að út­lit sé fyrir aukið jafn­vægi á milli fram­boðs og eftir­spurnar á næstunni.

Með lækkandi vöxtum og hjaðnandi verðbólgu á þessu ári er von á því að sala nýrra íbúða taki við sér og verktökum takist að selja þær íbúðir sem eru í byggingu. Þróunin bendir til þess að íbúða­markaðurinn sé að leita í eðli­legra horf eftir miklar sveiflur síðustu missero