Eins og Viðskiptablaðið sagði frá á dögunum hefur gengi hlutabréfa netverslunarinnar Boozt hefur lækkað um rúmlega 66% það sem af er ári, eða úr 180 sænskum krónum á hlut niður í um 60 sænskar krónur á hlut.

Nú á dögunum gaf Boozt út uppgjör annars ársfjórðungs. Þar kemur fram að tekjur félagsins á öðrum ársfjórðungi hafi numið 1.553 milljónum sænskra króna, eða sem nemur tæplega 21 milljarði íslenskra króna. Tekjur jukust um 5,2% í samanburði við sama tímabil í fyrra. Árið áður jukust tekjur um 20,2% á öðrum ársfjórðungi í samanburði við sama fjórðung árið 2020. Þegar horft er til fyrri helmings ársins 2022 námu tekjur 2.977 milljónum sænskra króna, eða um 40 milljörðum íslenskra króna, og jukust um 13,9%. Á fyrri helmingi ársins 2021 jukust tekjur um 31,1% í samanburði við sama fjórðung árið 2020.

Hagnaður annars ársfjórðungs nam 46 milljónum sænskra króna, eða 613 milljónum króna, og dróst saman um fjórðung frá sama tímabil í fyrra. Hagnaður fyrri helmings ársins 2022 nam svo tæplega 39 milljónum sænskra króna, eða tæplega 520 milljónum íslenskra króna, og lækkaði um 63% frá sama tímabili í fyrra.

Í uppgjörinu kemur fram að áætlanir Boozt hafi gert ráð fyrir 20 til 25% tekjuvexti á árinu 2022. Aftur á móti neyddist félagið til að uppfæra þá spá í júní, niður í 10 til 15% áætlaðan tekjuvöxt, þar sem hægt hefur á eyðslugleði neytenda. Verðbólgudraugurinn er ekki einungis á sveimi hér á landi heldur er hann einnig á kreiki í Evrópu, Bandaríkjunum og víðar um heim. Seðlabankar víða hafa brugðist við með því að hækka vexti og kann það að skýra minnkandi kaupgleði. Auk þess má gera ráð fyrir að dregið hafi úr sölu á netinu samhliða því að fallið hefur verið frá ströngum samkomutakmörkunum eftir því sem liðið hefur á faraldurinn.

Í uppgjörinu kemur jafnframt fram að í lok annars ársfjórðungs hafi verið gripið til þess ráðs að fækka starfsfólki og er áætlað að sú aðgerð muni spara fyrirtækinu 36 milljónir sænskra króna, eða um 480 milljónir íslenskra króna, árlega.

Fréttin er hluti af lengri umfjöllun í nýjasta tölublaði Viðskiptablaðsins.