Festi, móðurfélag Krónunnar, N1 og Elko, hagnaðist um 953 milljónir króna á öðrum ársfjórðungi samanborið við 738 milljónir á sama tímabili í fyrra. Festi birti uppgjör eftir lokun Kauphallarinnar í dag.

Rekstrarhagnaður Festi fyrir afskriftir (EBITDA) nam 2,9 milljörðum á síðasta ársfjórðungi og jókst um 13,8% milli ára.

Í uppgjörstilkynningu Festi kemur fram að EBITDA spá félagsins fyrir árið 2024 hafi verið hækkuð um 800 milljónir króna og sé nú 12,3-12,7 milljarðar króna.

Hækkun afkomuspárinnar er rakin til kaupanna á Lyfju sem gengið var frá á dögunum eftir að Festi gerði sátt við Samkeppniseftirlitið vegna viðskiptanna. Lyfja varð formlega hluti af Festi-samstæðunni þann 1. júlí síðastliðinn.

EBITDA-hagnaður Lyfju á síðasta ári var um 1,4 milljarðar. Festi áætlar að EBITDA-afkoma Lyfju verði í kringum 800 milljónir króna.

Framlegðarhlutfallið eykst

Vörusala Festi á öðrum fjórðungi jókst um 5,4% milli ára og nam 36 milljörðum. Framlegð nam 8,6 milljörðum og jókst um 10,8% milli ára. Framlegðarstig nam 23,8% og hækkaði um 1,1 prósentu frá öðrum fjórðungi 2023.

„Rekstur félagsins gekk vel á öðrum ársfjórðungi og var niðurstaðan í samræmi við áætlanir félagsins. Framlegðarstig styrktist hjá öllum félögum samstæðunnar og hækkar um 1,1 p.p. milli ára,“ segir Ásta Fjeldsted, forstjóri Festi.

„Aðhald með birgjum, aukinn eiginn innflutningur og árangur í minnkun á rýrnun á kostnaðarhliðinni er fyrst og fremst að skila þessum árangri eins og nýleg verðlagskönnun ASÍ sýnir vel fyrir dagvörumarkaðinn. Þá fjölgaði heimsóknum í verslanir og var góð magnaukning í sölu flestra vöruflokka milli ára.“

Hagnaður Krónunnar eykst en áfram tap hjá N1

Í uppgjöri Festi kemur fram að á fyrstu sex mánuðum ársins hagnaðist Krónan um 1.015 milljónir króna samanborið við 685 milljónir á fyrri árshelmingi 2023. Velta matvöruverslunarinnar jókst um 14,7% milli ára og nam 34,4 milljörðum á fyrri árshelmingi.

Tap varð af rekstri N1 á fyrstu sex mánuðum ársins upp á 156 milljónir króna samanborið við 427 milljóna tap á sama tímabili í fyrra. Velta N1 stóð í stað milli ára og nam 26 milljörðum á fyrri árshelmingi.

Hagnaður Elko á fyrri árshelmingi jókst um 6% milli ára og nam 240 milljónum króna. Velta raftækjaverslunarinnar jókst um 3,7% milli ára og nam 8,6 milljörðum á fyrstu sex mánuðum ársins.