Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu, segir tvær meginástæður fyrir því að verðlagshækkanir á innfluttri mat- og dagvöru eru að koma fram fyrst núna, en verslunarmenn segjast eiga miklar hækkanir í vændum frá sínum birgjum og hafa varað við yfirvofandi holskeflu verðhækkana í kjölfarið.

„Fyrir það fyrsta tekur tíma frá því að kornið er skorið á akrinum þar til það verður að fullbúinni neysluvöru. Þetta er töluvert ferli. Að sama skapi tekur það því tíma fyrir áhrifin af hrávöruverðshækkunum að koma fram í verðlagi neytendavara. Hitt er það að tilkynningar erlendra birgja um verðbreytingar berast svo til alltaf í upphafi árs. Heildsalarnir eru að fá þessar tilkynningar mjög mikið þá. Þannig hefur það alltaf verið,“ segir Andrés.

Viðbrögðin á skuldabréfamarkaði hófleg
Janúarmæling verðbólgunnar kom flestum í nokkuð opna skjöldu, en 12 mánað verðbólga hækkaði um 0,6 prósentustig og mælist nú 5,7%, sú mesta í áratug.

Viðbrögð á skuldabréfamarkaði við janúarmælingunni virðast þó ekki benda til þess að of mikil svartsýni hafi gripið um sig meðal markaðsaðila. Ávöxtunarkrafa verðtryggða markflokksins RIKS 26 – þess stysta á markaði – féll um 15 punkta í -0,21%, og krafa RIKB 22, sem er á gjalddaga í október á þessu ári, hækkaði um tæpa 20 punkta í 3,15%.

Sjá einnig: Enn horfur á hjöðnun

Telja taumhaldið of lítið
Væntingakönnun Seðlabankans meðal markaðsaðila sem birt var á miðvikudag lýsir að sama skapi ekki mikilli svartsýni. Markaðsaðilar spáðu um 3,5% verðbólgu að ári liðnu, en taka skal fram að könnunin var gerð nokkrum dögum áður en janúarmæling vísitölu neysluverðs var birt. Í henni kom enn fremur fram að þrír af hverjum fjórum töldu taumhald peningastefnunnar of lítið um þessar mundir.

Stýrivextir eru nú 2% eftir 0,5 prósentustiga hækkun á síðasta ákvörðunarfundi peningastefnunefndar í nóvember, en greiningardeildir bankanna spá 0,75 prósentustiga hækkun á næsta fundi nefndarinnar næstkomandi miðvikudag.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð , aðrir geta skráð sig í áskrift hér .