Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti tilkynnti í dag um að lágmarkslaun í landinu yrðu hækkuð upp í 8.500 lírur á mánuði, sem svarar 55% aukningu, til að aðstoða landsmenn við kaupmáttarrýrnun í yfirstandandi óðaverðbólgu, sem mældist síðast 84,4%.
Í umfjöllun Financial Times segir að aðgerðin gæti aukið vinsældir flokksins hans fyrir forseta- og þingkosningar í júní næstkomandi. Erdogan gæti jafnframt fært kosningarnar fram um einna eða tvo mánuði ef fylgi flokksins eykst á næstu misserum.
Lágmarkslaunin verða nú tvöfalt hærri en í byrjun þessa árs og 55% hærri en við síðustu breytinguna í júlí síðastliðnum. 8.500 líru mánaðarlaun samsvara um 65,6 þúsund krónum.
Verðbólga í Tyrklandi hefur vaxið gríðarlega í ár og mældist 84,4% í nóvember. Þrátt fyrir vaxandi verðbólgu hefur Seðlabanki Tyrklands lækkað stýrivexti úr 14% í 9% í ár.
Áform Erdogan um að auka hagvöxt Tyrklands byggja á ódýru vinnuafli, til að tryggja samkeppnishæfni í útflutningsgreinum. Kaupmáttarrýrnun í landinu hefur þó dregið verulega úr stuðningi við stjórnvöld og fylgi Réttlætis- og þróunarflokksins eru í sögulegu lágmarki.