Seðlabanki Simbabve hefur hækkað stýrivexti í landinu úr 80% í 200% til að reyna að ná tökum á verðbólgu og koma á stöðugra gengi á simbabveska dollarann. Alls hefur bankinn nú hækkað vexti um 14 þúsund punkta í ár, mest allra seðlabanka heims. Bloomberg greinir frá.
„Peningastefnunefndin lét í ljós miklar áhyggjur af nýlegum verðbólguskotum,“ er haft eftir seðlabankastjóranum John Mangudya. „Nefndin vakti athygli á að aukin verðbólga væri að grafa undan eftirspurn og sjálfsöryggi neytenda og að ef ekki verður brugðist við, þá mun það stofna í hættu þeim efnahagslegum ávinningi sem áunnist hefur á undanförnum tveimur árum.“
Hækkandi hrávöruverð vegna röskunar á aðfangakeðjum hefur sett þrýsting á gjaldmiðil þjóðarinnar og leitt til aukinnar notkunar á bandaríska dollaranum til að greiða fyrir vörur og þjónustu.
Verðbólga í Simbabve mældist 191,6% í júní, samanborið við 131,7% í maí. Þá hefur simbabveski dollarinn veikst um 69% gagnvart bandaríska dollaranum í ár.
Fjármálaráðherrann Mthuli Ncube tilkynnti í dag að simbabveska ríkisstjórnin myndi lögleiða notkun bandaríska dollarans á næstu fimm árum til að stuðla að stöðugra gengi simbabveska dollarans.