Ríkisstjórnin hyggst hækka tekjuskatt lögaðila tímabundið til eins árs úr 20% í 21% vegna rekstrarhagnaðar ársins 2024. „Sú breyting er einnig hluti af aðgerðum stjórnvalda til að draga úr þenslu í hagkerfinu,“ segir í nýrri fjármálaáætlun fyrir árin 2024-2028.
„Þar horfum við náttúrulega til þess að í gegnum heimsfaraldur, þeim óvenjulegu tímum sem þá voru uppi í efnahagslífinu, studdum við atvinnulíf og almenning til þess að komast í gegnum þetta. Við vonumst til þess að með þessari tekjuöflun geti atvinnulífið í raun lagt sitt af mörkum með okkur í þessu mikilvæga verkefni,“ sagði Katrín Jakobsdóttir á blaðamannafundi síðdegis í dag.
Hækka veiðigjald og fiskeldisgjald
Meðal annarra fyrirhugaðra tekjuöflunarráðstafana ríkisstjórnarinnar er hækkun á veiðigjaldi og fiskeldisgjaldi á áætlunartímabilinu.
Hækkun veiðigjaldsins er hluti af verkefni Svandísar Svavarsdóttur. Í fjármálaáætluninni segir að fram undan sé frekari greining á mismunandi útfærslum á veiðigjaldi „með það fyrir augum að einfalda kerfið en um leið að hækka veiðigjald á stærri samþættar útgerðir en á móti að hækka frítekjumark til hagsbóta fyrir litlar og meðalstórar útgerðir“.
„Áætlað er að þessar breytingar skili auknum tekjum í ríkissjóð frá og með árinu 2025.“
Svandís hefur einnig sett aftur á dagskrá fyrirhugaða hækkun fiskeldisgjalds eftir útgáfu skýrslu Boston Consulting Group og stjórnsýsluúttekt Ríkisendurskoðunar.
„Liggja nú báðar skýrslurnar fyrir og er fyrirhugað að gjaldhlutfall efsta þreps, á hvert kílógramm slátraðs lax, hækki úr 3,5% í 5% af meðaltali alþjóðlegs markaðsverðs á Atlantshafslaxi. Mun sú breyting koma til hækkunar tekna ríkissjóðs af gjaldinu allt tímabil fjármálaáætlunarinnar.”
Í fjármálaáætlun segir að við útfærslur á breyttri gjaldtöku á sjávarútveg og fiskeldi verði leitast við að taka mið af bæði kynja- og jafnréttissjónarmiðum.
Endurgreiðsluhlutfall lækkað
Í fjármálaáætlun kemur fram að ein þeirra aðgerða sem komi þegar til framkvæmdar þegar á miðju yfirstandandi ári þegar endurgreiðsluhlutfall virðisaukaskatts af vinnu við íbúðarhúsnæði verður lækkað úr 60% í 35%.
Hlutfallið var hækkað tímabundið árið 2020 úr 60% í 100% í átakinu Allir vinna til að ýta undir aukin umsvif vegna efnahagsástandsins í Covid-faraldrinum. Hlutfallið hefur verið 60% frá því í september 2022.