Birta lífeyrissjóður hefur hækkað verðmat sitt á hlutum í Samkaupum um 56%. Verðmat á 15,2% hlut Birtu í Samkaupum hækkar úr 791 milljón króna í 1,24 milljarða króna milli ára samkvæmt ársreikningi lífeyrissjóðsins. Miðað við það hækkar verðmat á Samkaupum í heild úr 5,2 milljörðum króna í 8,1 milljarð króna.
Samkaup reka 60 verslanir um land allt, meðal annars undir merkjum Nettó, Kjörbúðarinnar, Krambúðarinnar og Iceland. Samkaup velti 27,6 milljörðum króna árið 2018 og hagnaðist um 336 milljónir króna miðað við 25,6 milljarða veltu og 258 milljóna hagnað árið 2017.
Velta félagsins jókst því um 8% milli ára og hagnaður um 30%. Hjá félaginu starfa um 1.250 manns í um 660 stöðugildum. Í nóvember 2018 keyptu Samkaup 12 verslanir af Basko, sem voru að stærstum hluta verslanir 10-11 og Iceland. Stærsti hluthafi Samkaupa er Kaupfélag Suðurnesja með 57% hlut.