Seðlabanki Evrópu hefur tilkynnt um hálfs prósentu vaxtahækkun, í samræmi við væntingar markaðarins. Stýrivextir bankans standa nú í 2,0% og hafa ekki verið hærri frá árinu 2008.
Seðlabankinn sagði að verðbólga á evrusvæðinu, sem mældist 10,0% í nóvember, sé enn alltof mikil. Bankinn þurfi því að hækka vexti umtalsvert til að ná verðbólgunni niður.
Í umfjöllun Financial Times segir að ávöxtunarkrafa á 10 ára þýskum ríkisskuldabréfum hafi hækkað um 0,1 prósentu eftir tilkynningu bankans og að 10 ára ítölsk ríkisbréf hafi hækkað um 0,22 prósentur.
Seðlabanki Bandaríkjanna, Englandsbanki og seðlabanki Sviss hafa allir tilkynnt um hálfs prósentu vaxtahækkun á síðasta sólarhring. Norski seðlabankinn hækkaði einnig vexti um 0,25 prósentur, upp í 2,75%, í dag.