Svissneski úraframleiðandinn Rolex hækkar gjarnan verð sín aðeins 1. janúar hvers árs. Verðhækkanir Rolex geta gefið vísbendingar um eftirspurn eftir lúxusvörum, þróun aðfangakostnaðar og launakostnaðar, og verðbólgu.

Rolex hækkaði verð á nokkrum týpum sem unnar eru úr eðalmálmum (e. precious metals) um allt að 8% um áramótin. Til samanburðar hækkaði úraframleiðandinn verð á slíkum týpum um ríflega 4% í Bretlandi í byrjun síðasta árs.

Verð á gulagulls Day-Date úri með 40 millimetra svartri skífu hækkaði úr 41 þ‎úsund evrum í 44,2 þúsund evrur í gær, 1. janúar, samkvæmt heimasíðu Rolex í Frakklandi. Séu fjárhæðirnar heimfærðar yfir í íslenskar krónur þá hækkaði verð úrsins, úr 5,9 milljónum króna í tæplega 6,4 milljónir króna.

Í umfjöllun Bloomberg eru verðhækkanirnar að stórum hluta raktar til þess að heimsmarkaðsverð gulls hækkaði um 27% í fyrra, sem er mesta árshækkun gullverðs í fjórtán ár. Fram kemur að verðhækkanir á stálúrum hafi verið talsvert minni.

Rolex framleiðir yfir eina milljón úra á hverju ári. Sala félagsins nemur yfir 11 milljörðum dala samkvæmt áætlunum greiningaraðila.