Úrvalsvísitalan hefur hækkað um 0,8% frá opnun Kauphallarinnar í dag. Hlutabréf bankanna þriggja í Kauphöllinni - Arion, Íslandsbanka og Kviku – hafa hækkað um meira en eitt prósent frá opnun markaða.

Almennt hlutafjárútboð Íslandsbanka, þar sem ríkið hyggst selja að lágmarki 20% hlut í bankanum, hófst í gær og lýkur kl. 17 á morgun. Tilkynnt var rétt fyrir sexleytið í gær að sameiginlegir umsjónaraðilar útboðsins hefðu móttekið pantanir umfram grunnmagn útboðsins.

Kvika banki leiðir hækkanir en hlutabréfaverð bankans hefur hækkað um 1,8% í yfir 400 milljóna króna veltu og stendur nú í 14,2 krónum á hlut. Gengi Kviku var síðast hærra í byrjun apríl.

Gengi hlutabréfa Íslandsbanka hefur hækkað um 2,2% og stendur í 113 krónum á hlut þegar fréttin er skrifuð. Hlutabréfaverð bankans er 6% yfir 106,56 króna útboðsgenginu í tilboðsbók A í yfirstandandi útboði á hlut ríkisins í Íslandsbanka.

Hlutabréf Arion banka hafa hækkað um 1,9% það sem af er degi og stendur gengi hlutabréfanna nú í 159,5 krónum á hlut.

Þá hefur gengi Skaga, móðurfélags Fossa fjárfestingarbanka og VÍS, hækkað um 1,6% og stendur í 19,3 krónum á hlut.

Auk ofangreindra félaga þá hefur gengi Haga, Reita, Alvotech og Ölgerðarinnar hækkað um meira en eitt prósent. Gengi Amaroq Minerals, sem birti uppgjör fyrir fyrsta ársfjórðung í morgun, hefur lækkað um 4,5% í yfir hundrað milljóna króna veltu og stendur nú í 137,5 krónum á hlut.