Hlutabréf á mörkuðum víða um heim hafa hækkað talsvert eftir að verðbólgutölur í Bandaríkjunum voru birtar klukkan hálf tvö í dag. Íslenski hlutabréfamarkaðurinn tók við sér eftir birtinguna og hefur Úrvalsvísitalan hækkað um 1,2% það sem af er degi.
Verðbólga í Bandaríkjunum mældist 7,1% í nóvember, samanborið við 7,7% í október. Hagfræðingar áttu von á að verðbólgan yrði nær 7,3% í síðasta mánuði.
Verð á framvirkum samningum með hlutabréf á bandaríska markaðnum hefur hækkað um meira en 2% og því má vænta hækkana við opnun markaðarins í dag. Jafnframt hefur krafan á tíu ára bandarískum ríkisskuldabréfum fallið úr 3,61% í 3,45%.
Evrópska hlutabréfavísitalan Stoxx Europe 600 hefur hækkað um 1,8% og enska vísitalan FTSE 100 um tæplega 1,0%.