Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,8% í 6,2 milljarða króna veltu á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Tæplega þriðjungur veltunnar var með bréf Arion banka, sem hækkuðu um 1,85% í viðskiptum dagsins.
Hinn stóri bankinn á markaði, Íslandsbanki, hækkaði um 0,55% í 240 milljón króna viðskiptum. Gengi bréfa bankans hafði lækkað niður í 117 krónur í síðustu viku, sama gengi og söluverðið í útboði Bankasýslunnar á 22,5% hlut í bankanum. Gengið hefur hækkað um 9% síðan þá og stendur í tæplega 128 krónum.
Marel hækkaði um tæp 3% í 860 milljóna viðskiptum dagsins. Þá hækkaði Eimskip um 3,75% og Brim um 2,9%.
Tryggingafélagið Sjóvá hækkaði mest allra félaga á markaði, um 3,8% í 300 milljóna veltu. Þá hækkaði Vís, hitt tryggingafélagið á markaði, um 2,8%.
Sex félög lækkuðu í viðskiptum dagsins. Síminn lækkaði um 1,8% í 250 milljóna veltu og Ölgerðin um 1,4%.
Nova lækkaði um eitt prósentustig í 18 milljón króna viðskiptum. Gengi Nova stendur nú í 4,02 krónum og er rúmlega 21% undir útboðsgenginu í almenna hlutafjárútboði félagsins í sumar.