Úrvalsvísitalan hækkaði um 1,4% í 2,4 milljarða króna viðskiptum á hlutabréfamarkaði Kauphallarinnar í dag, samanborið við 1,5% lækkun í gær. Helmingur félaga aðalmarkaðarins hækkaði um meira en 1% í viðskiptum dagsins.

Icelandair hækkaði mest af félögum Kauphallarinnar eða um 4% í 65 milljóna viðskiptum en bréf flugfélagsins féllu um 4,8% í gær. Gengi Icelandair stendur nú í 1,66 krónum á hlut.

Auk Icelandair þá hækkuðu hlutabréf Alvotech, Sýnar og Origo um meira en 2%.

Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 0,7% í hálfs milljarðs króna viðskiptum. Gengi Arion stendur nú í 150,5 krónum.

Næst mesta veltan var með hlutabréf Marels sem hækkuðu um 1,8% í dag en félagið hefur engu að síður fallið um 9,4% á einum mánuði. Gengi Marels stendur nú í 500 krónum á hlut.