Úrvalsvísitalan hefur hækkað um meira en eitt prósent í 1,5 milljarða króna viðskiptum frá opnun Kauphallarinnar í morgun. Eimskip leiðir hækkanir en gengi flutningafélagsins hefur hækkað um 3,7%, en þó aðeins í 22 milljóna veltu.
Smásölufyrirtækin Festi og Hagar hafa bæði hækkað um meira en 2% í dag.
Hlutabréfaverð Marel stendur nú í 500 krónum eftir 1,6% hækkun í nærri hundrað milljóna viðskiptum í dag. Gengi Marels stóð síðast í 500 krónum eða meira þann 21. september síðastliðinn. Hlutabréf Marels hafa nú hækkað um 14% frá byrjun síðustu viku.
Mesta veltan það sem af er degi er með hlutabréf Íslandsbanka, eða um 400 milljónir. Gengi bankans hefur hækkað um 0,3% og stendur nú í 128,2 krónum.
Hlutabréfaverð Arion banka hafa einnig hækkað um 1,5% í yfir 300 milljóna veltu og stendur nú í 162 krónum. Eftir lokun markaða á föstudaginn var tilkynnt um að eiginkona Benedikts Gíslasonar, bankastjóra Arion, og Iða Brá Benediktsdóttir aðstoðarforstjóri hefðu keypt hlutabréf í bankanum fyrir samtals 42 milljónir.