Úrvalsvísitalan hækkaði um 2,6% í 4,6 milljarða króna viðskiptum á aðalmarkaði Kauphallarinnar í dag. Eimskip leiddi hækkanir en hlutabréfaverð flutningafélagsins, sem sendi frá sér jákvæða afkomuviðvörun í gærkvöldi, hækkaði um 9,6% í dag.

Marel fylgdi þar á eftir í 3,2% hækkun í 250 milljóna veltu. Gengi Marels stendur nú í 646 krónum á hlut sem er 13,5% hærra en þegar dagslokagengið í ár fór lægst í 569 krónur þann 20. júní síðastliðinn.

Sjö önnur félög hækkuðu einnig um meira en 2% í viðskiptum dagsins. Smásölufyrirtækin Hagar og Festi hækkuðu um nærri 3% í dag. Mesta veltan var með hlutabréf Arion banka sem hækkuðu um 2,4% í 1,4 milljarða veltu í dag.

Hækkanir erlendis

Það hafa einnig verið hækkanir á hlutabréfamörkuðum erlendis. Stoxx Europe 600 vísitalan hefur hækkað um 2%, breska FTSE 100 hefur hækkað um 1,1% og bandaríska S&P 500 vísitalan hefur hækkað um meira en eitt prósent frá opnun markaða.

Í umfjöllun Financial Times segir að dregið hafi úr væntingum fjárfesta um vaxtahækkanir vegna mögulegs efnahagssamdráttar. Verðlagning á framvirkum samningum gefa til kynna að fjárfestar eigi von á því að Seðlabanki Bandaríkjanna verði búinn að hækka vexti upp í 3,4% í byrjun næsta árs, sem er hálfri prósentu minna en þeir spáðu fyrir þremur vikum síðan.