Alvotech tilkynnti í gærkvöldi að félagið hefði fært upp afkomuspá sína fyrir árið 2025. Endurskoðuð spá er sögð byggja á miklum áhuga á samningum um ný lyf í þróun, þar með talið um rétt til markaðssetningar á fyrirhugaðri hliðstæðu við Cimzia.

„Við höfum fengið mjög sterk viðbrögð frá samstarfsaðilum við kaupum á fyrirhugaðri hliðstæðu við Cimzia og fjölgun lyfja sem eru í þróun,“ segir Róbert Wessman, forstjóri og stjórnarformaður Alvotech, í uppgjörstilkynningu félagsins.

Alvotech gerir nú ráð fyrir að heildartekjur félagsins í ár verði á bilinu 600-700 milljónir dala, en til samanburðar gerði afkomuspáin sem félagið birti í lok mars ráð fyrir að heildartekjur verði á bilinu 570-670 milljónir dala.

Ný afkomuspá gerir ráð fyrir að aðlöguð EBITDA framlegð verði á bilinu 200-280 milljónir dollara en fyrri spá gerði ráð fyrir 180-260 milljónum dala.

Hagnast um 17 milljarða

Bókfærður hagnaður Alvotech á fyrsta ársfjórðungi nam tæplega 110 milljónum dala, eða um 14 milljörðum króna. Til samanburðar tapaði félagið 218,7 milljónum dala á sama tímabili í fyrra.

„Stærsta hluta bókfærðs hagnaðar fyrir ársfjórðunginn má rekja til færslna sem ekki hafa áhrif á handbært fé, það er gangvirðisbreytinga á afleiðutengdum skuldum sem einkum má rekja til lækkunar á markaðsgengi hlutabréfa Alvotech, og eru færðar sem fjármagnstekjur eins og áður segir,“ segir í uppgjörstilkynningu Alvotech.

Heildartekjur Alvotech á fyrsta fjórðungi ársins voru 132,8 milljónir dala, eða um 17 milljarðar króna, samanborið við 36,9 milljónir á sama fjórðungi í fyrra, sem samsvarar 260% aukningu. Sölutekjur á fyrsta fjórðungi jukust um 786% og námu 109,9 milljónum dala.

Aðlöguð EBITDA framlegð á ársfjórðungnum var 20,5 milljónir dala , en var neikvæð um 38,4 millljón dollara í sama fjórðungi í fyrra.

„Alvotech heldur áfram að skila frábærum árangri. Jákvætt sjóðstreymi frá rekstri var á fyrsta ársfjórðungi og góð framlegð sem hlutfall af sölutekjum, sem rekja má til árangurs af markaðsetningu og aukinnar hagkvæmni í framleiðslu. Á þessu ári gerir Alvotech ráð fyrir jákvæðu handbæru fé frá rekstri og að félagið geti fjármagnað sig alfarið með eigin tekjum,“ segir Róbert Wessman.

„Meginmarkmið Alvotech á næstu mánuðum er markaðssetning fjögurra nýrra hliðstæða. Með kaupunum á rannsóknarstarfsemi Xbrane í Svíþjóð og hraðari takti í lyfjaþróun, höldum við áfram að byggja upp eitt verðmætasta safn líftæknilyfjahliðstæða sem þekkist í okkar grein. Forskot okkar byggir á þeirri fullkomnu aðstöðu til þróunar og framleiðslu sem við höfum byggt upp, þar sem allir þættir eru á einni hendi.“

Sækja 400 milljónir króna samhliða skráningu í Svíþjóð

Alvotech tilkynnti í mars að fyrirtækið hefði keypt þróunarstarfsemi sænska líftæknifyrirtækisins Xbrane Biopharma AB fyrir um 3,6 milljarða íslenskra króna. Samhliða kaupunum myndi Alvotech í framhaldinu skoða mögulega skráningu í kauphöllinni í Stokkhólmi með útgáfu sænskra heimildaskírteina (SDR).

Alvotech tilkynnti í morgun að Nasdaq í Stokkhólmi hefði samþykkt umsókn félagsins um töku heimildaskírteina félagsins til viðskipta á sænska hlutabréfamarkaðnum, að gefnum ákveðnum skilyrðum. Áætlað er að viðskiptin hefjist 19. maí næstkomandi.

Alvotech áætlar að félagið gefi út heimildaskírteini að fjárhæð 30 milljónir sænskra króna, eða ríflega 400 milljónir króna, vegna útboðs í Svíþjóð gert er ráð fyrir að fari fram á dögunum 9-16 maí.