Donald Trump Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær nýja tolla á innflutta bíla en 25% tollar verða lagðir á alla innflutta bíla og varahluti sem koma til Bandaríkjanna. Trump segir að tollarnir á bíla taki gildi 2. apríl nk. og að tollar á varahluti verði síðan settir á í maí.

Forsetinn segir að tollarnir muni leiða til gífurlegs vaxtar fyrir bandarískan bílaiðnað og lofaði því að þeir myndu styðja við störf og fjárfestingar í Bandaríkjunum.

Bandaríkin fluttu inn rúmlega átta milljónir bíla á síðasta ári og samsvöruðu innfluttir bílar rúmlega helmingi af öllum seldum bílum. Viðskiptin námu rúmlega 240 milljörðum dala og komu flestir bílar frá Mexíkó, Suður-Kóreu, Japan, Kanada og Þýskalandi.

Margir bandarískir bílaframleiðendur eru einnig með starfsemi og framleiðslu í Mexíkó og Kanada vegna fríverslunarsamnings þeirra við Bandaríkin.