Stjórn Orkuveitu Reykjavíkur heimilaði Orkuveitunni að hækka skammtímalánasamning við Carbfix um allt að 800 milljón krónur eða samtals 2,8 milljarða króna vegna rekstrar og framkvæmda á síðari hluta ársins 2023 þar til hlutafjáraukning félagsins gengur eftir.
Þetta kemur fram í fundargerð Orkuveitunnar frá 28. ágúst en vikuna áður samþykkti borgarráð að veita Orkuveitunni heimild til að stofna nýtt hlutafélag um rekstur Carbfix.
Rekstur Carbfix hefur verið í opinberu hlutafélagi frá árinu 2019 en undirbúningur að sölu á nýju hlutafé í Carbfix hefur staðið yfir í dágóðan tíma.
Samþykktu skilmála sjóðstýringarfyrirtækis
Samkvæmt Orkuveitunni gæti hlutafjármögnunin numið um 1,4 milljörðum króna en fjöldi alþjóðlegra fjárfesta hafa lýst yfir áhuga, m. a. Credit Suisse og Equinor sem er fjárfestingafyrirtæki norska ríkisolíufélagsins.
Innherji greindi frá því í morgun að stjórn OR hafi samþykkt að gangast undirgangast tiltekna skilmála tilboðs Stonepeak sem er bandarískt sjóðstýringarfyrirtæki og einn stærsti innviðafjárfestir heims.
Carbfix hefur hannað lausnir til að binda koldíoxíð varanlega í berg en áætlað er að Carbfix verji 40 milljörðum á árunum 2023 til 2027 í uppbyggingu förunarstöðva fyrir koldíoxíð og í frekari rannsóknir.
Umfangsmest verði þó áform félagsins við Straumsvík, þar sem CODA-verkefnið verður byggt upp og á sala nýs hlutafjár í Carbfix að nýtast í fjármögnun á hluta fjárfestinganna.
Carbfix hlaut styrk í fyrra sem nemur 16 milljörðum króna frá Nýsköpunarsjóði ESB til uppbyggingar á mótttöku- og förgunarmiðstöðinni Coda Terminal, Sódastöðinni, í Straumsvík.
Undir lok síðasta árs var greint frá því að miðstöðin verði sú fyrsta sinnar tegundar í heiminum og áætlað að styrkupphæðin nemi ríflega þriðjungi af kostnaði verkefnisins. Áætlað er að starfsemin hefjist um mitt ár 2026 og nái fullum afköstum árið 2031.