Hús­næðis­liðurinn vó þyngst til hækkunar á vísi­tölu neyslu­verðs í febrúar en greiningar­deild Ís­lands­banka bendir á að ekki sé þó allt sem sýnist þar sem hækkun í reiknuðu hús­leigunni var nokkuð hóf­leg eða um 0,7% og hafði 0,13% á­hrif á VNV.

„Það sem vegur aftur á móti þyngst til hækkunar er undir­liðurinn „annað vegna hús­næðis“ sem hækkar um 11% (0,18% áhrif á VNV) og er það að mestu vegna 17% hækkunar á sorphirðugjöldum,” segir í greiningu Ís­lands­banka sem Berg­þóra Baldurs­dóttir hag­fræðingur skrifar.

Reykja­víkur­borg sem hefur verið í tölu­verðum fjár­hags­vand­ræðum síðustu ár greindi frá á­ætlunum sínum um hækkanir á sorp­hirðu­gjaldi í desember síðast­liðinn.

Á­ætlar borgin að heildar­tekjur sínar af sorp­hirðu­gjöldum vegna hirðu við heimili hækki um 20% milli ára, úr 1.855 m.kr. í 2.234 m.kr.

Í á­ætlun borgarinnar er búist við því að vegna þess að í­búðum muni fjölga um 2,4% verði hækkunin á hverja íbúð um 12%.

Sam­kvæmt Hag­stofunni og Ís­lands­banka virðist raunin þó vera 17% hækkun á hverja íbúð.

Hækkunin á reiknuðu húsa­leigunni var í takti við spá Ís­lands­banka en á­samt sorp­hirðu­gjöldum hafði vaxtar­þátturinn einnig töluverð áhrif. Vaxtaþátturinn vó tæp­lega 0,6% til hækkunar á meðan markaðs­verðið á í­búðum hækkaði einungis um 0,1%.

„Þetta er talsverð breytt staða frá því sem var þegar verðhækkun á íbúðamarkaði var einn helsti drifkraftur hækkunar á vísitölunni.”

Þá segir einnig að uppkaup ríkisins á íbúðum í Grindavík muni að öllum líkindum hafa áhrif til hækkunar næstu mánuði.

Bergþóra Baldursdóttir hagfræðingur.
Bergþóra Baldursdóttir hagfræðingur.
© Aðsend mynd (AÐSEND)

„Það verður á­huga­vert að fylgjast með þróuninni á í­búða­markaði næstu mánuði. Við teljum að upp­kaup ríkisins á eignum í Grinda­vík muni hafa ein­hver á­hrif til hækkunar líkt og við fjölluðum um í þjóð­hags­spá okkar. Gæti farið svo að í­búða­verð á Suður­nesjum muni hækka meira en annars staðar þar sem út­lit er fyrir að margir í­búar Grinda­víkur vilji búa á því svæði. Ef það verður raunin munum við lík­lega sjá markaðs­verð í­búðar­hús­næðis hækka hraðar en vísi­tölu í­búða­verðs sem Hús­næðis- og mann­virkja­stofnun reiknar þar sem Hag­stofan mælir í­búða­verð um allt land en vísi­talan nær einungis til höfuð­borgar­svæðisins,“ segir í greiningu Ís­lands­banka.